Lögskipað umhverfishryðjuverk!

Deila:

 

“Bláköld niðurstaða er því einfaldlega sú að þau skip sem ráða ekki við að innbyrða mikið magn og gera úr því hámarks verðmæti, eiga ekkert erindi á makrílveiðar. Það er reginhneyksli og yfirvöldum til ævarandi skammar ef skipum sem nýta aðeins brot af þeim afla sem þau drepa verður leyft að stunda þessar veiðar.“

Svo skrifaði Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, í bréfi til stjórnvalda þegar Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra gaf út reglugerð um stjórnun makrílveiða árið 2011. Það er sú reglugerð sem Hæstiréttur hefur nú dæmt ólögmæta. Í bréfinu lýsir hann gangi veiðanna árið áður og afstöðu félagsmanna sinna til reglugerðarinnar. Enn hvað segir Árni nú, er hann sama sinnis?

Árni telur aðstæður hafi breyst til batnaðar með nýjum og betur útbúnum skipum auk þess sem þeim hluta fiskveiðiflotans sem engan veginn var í stakk búinn til ásættanlegrar umgengni á þessu sviði hafi ekki verið beitt til makrílveiða svo neinu nemi undanfarin ár. Uppsjávarskip sem dæla makrílnum beint spriklandi í kælitanka er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, sú aðferð sem er næst því að tryggja  þá umgengni og hráefnisgæði sem gera ætti kröfu til við þessar veiðar.  Smábátaflotinn hefur einnig náð athyglisverðum árangri þegar horft er gæðanna. Hvað varðar togarana þá tel ég allar líkur að á makrílveiðum sé notaður gluggi í þá veru sem ég lýsi í greininni og ljóst að þegar veiði er mikil  þá eru allar líkur á að umtalsvert magn af því sem kemur í trollið skili sér ekki um borð og algjör óvissa sé til staðar um hve mikil afföll verða á því sem fer út um gluggann.

Bréf Árna frá árinu 2011 er svo hljóðandi:

„Þann 4.  mars sl. var gefin út  af Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytinu reglugerð um komandi makrílvertíð þar sem kveðið er á um hvernig haga skal úthlutun veiðiheimilda og með hvaða hætti afli skal unninn. Þess virðist hafa verið  vandlega gætt af hálfu stjórnvalda, að sjómönnum sem veiða eiga kvótann og um leið hagsmunasamtökum þeirra sé alfarið haldið utan við allt sem að þessari reglugerðarsmíð snýr. Sömu sögu er að segja hvað varðar Hafrannsóknarstofnun og þá veiðarfæra og fiskifræðinga sem þar starfa.  Þetta gegnir furðu, sé litið til þeirrar stór-auknu áherslu stjórnvalda sem lögð er á bætta umgengni um auðlindir til lands og sjávar. Við blasir að það eru skipstjórarnir sem hafa reynsluna, vitneskjuna og þekkinguna frá síðustu vertíð auk þess sem augljóslega  hefði átt að leita samráðs við Hafró.

Að sögn þrautreyndra skipstjóra  átti sér þar stað slíkur sóðaskapur í umgengni um auðlindina að  enga hliðstæðu er að finna, ekki einu sinni úr  Smugunni á sínum tíma.  Fjöldi skipa sem á engan hátt voru í stakk búin til að til að stunda veiðarnar fengu veiðiheimildir, flykktust á miðin og hófu veiðar. Þannig var samankominn á miðunum  fjöldi skipa með gríðarlega veiðigetu, mjög takmarkaða frystigetu og  nánast  enga aðstöðu til að geyma hráefnið til að halda því fersku.

Veiðafæri flestra þessara skipa voru útbúin með þeim hætti að  hæfilega ofarlega er skorið  gat á pokann, svokallaður gluggi, í hann er þræddur tvinni sem ætlast er til að slitni þegar afli hefur safnast upp að þeim stað á pokanum. Gert er ráð fyrir að sá afli sem í trollið kemur eftir að glugginn opnast fari þar út og með því móti sé komið í veg fyrir óviðráðanlegt aflamagn. Makríll er þeirrar náttúru að  ganga mjög skarpt í veiðarfærið í miklu magni.  Jafnvel þótt framangreindur gluggi opnist eins og til er ætlast þá blasir við að þegar mikið magn hrúgast inn í trollið þá annar glugginn engan veginn hlutverki sínu með þeim afleiðingum að makríllinn á ekki greiða leið út og drepst því í ómældu magni.

Ljóst er að mikið magn hefur á síðustu vertíð farið forgörðum með þessum hætti.  Þar af leiðandi lýsir það óásættanlegu þekkingarleysi og um leið virðingarleysi gagnvart auðlindinni ef stjórnvöld láta frá sér fara reglugerð sem viðheldur þessu svínaríi sem líkja má við það sem gerist ef minkur kemst í hænsnakofa, drepur allar hænurnar, en étur í besta falli hluta af einni þeirra. Bláköld niðurstaða er því einfaldlega sú að þau skip sem ráða ekki við að innbyrða mikið magn og gera úr því hámarks verðmæti, eiga ekkert erindi á makrílveiðar. Það er reginhneyksli og yfirvöldum til ævarandi skammar ef skipum sem nýta aðeins brot af þeim afla sem þau drepa verður leyft að stunda þessar veiðar.“

 

Deila: