Stuðlað að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku

Deila:

Landsnet, Rarik, HS Veitur og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa sameinast um að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði á Íslandi. Með viljayfirlýsingu sem þessir aðilar skrifuðu undir sl. föstudag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því að stuðla að aukinni raforkunotkun við vinnslu og draga þannig úr notkun á orkugjöfum sem gefa frá sér hærra kolefnisfótspor og um leið stuðla að því að markmið Parísarsamkomulagsins og aðgerðaráætlunar ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum náist.

Á undanförnum áratugum hafa íslenskir fiskmjölsframleiðendur notast bæði við olíu og rafmagn við framleiðslu sína. Fiskmjölsframleiðendur hafa undanfarin ár keypt skerðanlegan flutning og dreifingu á rafmagni. Vegna takmarkaðs öryggis á flutningi og dreifingu í raforkukerfinu, ótryggs framboðs á raforku og sveiflukenndrar eftirspurnar hjá fiskmjölsframleiðendum hefur olían verið og verður áfram nauðsynlegur varaaflgjafi í vinnslunni og kemur í stað rafmagns þegar á þarf að halda.

Aukin notkun og vöruframboð til lengri tíma

Flutnings- og dreifiaðilar, sem eru aðilar að þessari yfirlýsingu, lýsa því yfir að þeir muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að því að flutnings- og dreifikerfið í heild nýtist sem best þannig að fjárfestingar allra aðila séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt. Á sama tíma mun FÍF stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera framleiðslu sína enn umhverfisvænni með því að nota endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. FÍF hvetur félagsmenn sína til að nota skerðanlegan flutning og dreifingu eins mikið og framboð á slíkum flutningi og dreifingu leyfir. Á árinu 2017 kom 74% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja frá endurnýjanlegri raforku og talið er raunhæft að það hlutfall geti á næstu árum farið allt upp í 90%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku í landinu.

Frá undirritun yfirlýsingarinnar. Talið frá vinstri: Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna, Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK, Guðmundir Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets og Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets:

„Það er mjög ánægjulegt að sjá þann mikla árangur sem rafvæðing fiskmjölsverksmiðjanna hefur þegar náð. Í þessari viljayfirlýsingu er stefnt að frekari sókn í rafvæðingu þeirra. Landsnet mun áfram vera í fararbroddi með innleiðingu á nýrri tækni sem stuðlar að rafvæðingu til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Áætlanir fyrirtækisins um framtíðar uppbyggingu og þróun raforkuflutningskerfisins munu taka tillit til þessara auknu orkuflutningsþarfa í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti. Við hjá Landsneti höfum trú á að starfsemi fiskmjölsverksmiðja geti orðið að fullu rafvædd til framtíðar, það tekst með markvissum skrefum og samstilltu átaki.“

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik:

„Með yfirlýsingunni vill RARIK stuðla að því að áfram verði haldið með rafvæðingu fiskmjölsverksmiðja. Rafvæðingin kallar á umtalsverða orkunotkun í samanburði við almenna notendur og því þarf dreifikerfið víða talsverða styrkingu til að takast á við hana. RARIK mun stuðla að styrkingu rafdreifikerfisins þannig að takast megi á við þessa aukningu, með sama hætti og gert hefur verið á undanförnum árum á Austurlandi, þar sem umtalsverð styrking kerfisins hefur þegar átt sér stað. Fyrirtækið fagnar því að verksmiðjurnar noti raforku til vinnslu sinnar og yfirlýsingu þess efnis.“

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna hf:

„Með yfirlýsingunni vilja HS Veitur stuðla að því að áfram verði haldið með rafvæðingu fiskmjölsverksmiðja. Rafvæðingin kallar á umtalsverða orkunotkun í samanburði við almenna notendur en dreifikerfi HS Veitna er reyndar bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum þegar tilbúið að takast á við hana. Þröskuldurinn í dag á þessum stöðum er meginflutningskerfið en úr því verður vonandi bætt. HS Veitur fagna því að verksmiðjurnar noti raforku til vinnslu sinnar og yfirlýsingu þess efnis.“

Jón Már Jónsson, formaður FÍF:

„Yfirlýsing þessi er stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu sem þegar hefur átt sér stað í fiskmjölsverksmiðjunum og það er trú mín að hún muni stuðla að því að auka hana. Yfirlýsingin gerir það að verkum að FÍF getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn og skerðanlegan flutning og dreifingu umfram aðra orkugjafa. Það er von okkar að sá andi og þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við gerð yfirlýsingarinnar nái fram að ganga. Við viljum að lokum þakka Landsneti, RARIK og HS Veitum  fyrir góða samvinnu.“
Frá þessu er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Deila: