Árgangur þorsksins 2018 undir meðalstærð

Deila:

Fyrstu vísbendingar um vöxt og viðgang þorskstofnsins benda til að árgangur þessa árs sé heldur lakari en síðustu ár. Ýsan virðist vera að ná sér á strik eftir góða nýliðun síðustu ár. Grálúðan stendur verr en áður.

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem greint er frá helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska að haustlagi sem fram fór dagana 1. október til 12. nóvember sl. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.

Stofnvísitala þorsks hefur verið há en breytileg frá árinu 2013 og mældist nú nálægt meðaltali þessa tímabils. Vísitalan var mjög há árin 2015 og 2017 en mun lægri árin 2016 og 2018. Fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2018 gefa til kynna að hann sé undir meðalstærð. Vísitala ýsu hefur undanfarin ár mælst nálægt meðaltali tímabilsins. Nýliðun hefur verið góð síðustu fimm ár eftir sex léleg ár þar á undan. Vísitala veiðistofns grálúðu lækkaði umtalsvert eftir að hafa hækkað frá árinu 2006 þegar hún var í lágmarki, en vísitala nýliðunar hefur lækkað hratt frá hámarkinu árin 2009-2013.

Stofnvísitala gullkarfa lækkaði eftir að hafa undanfarin fjögur ár verið sú hæsta síðan mælingarnar hófust. Nýliðun gullkarfa hefur undanfarin ár verið mjög léleg. Vísitala veiðistofns djúpkarfa hefur hækkað undanfarin ár eftir sögulegt lágmark en nýliðun er áfram mjög léleg.

Vísitala veiðistofns blálöngu hefur lækkað frá árinu 2009 þegar hún var í hámarki og er nú svipuð og á árunum 2001-2005. Vísitala veiðistofns gulllax hefur hækkað frá árinu 2000 og er nú þrisvar sinnum hærri en við upphaf mælinganna.
Stofnvísitölur margra tegunda, eins og ufsa, langlúru, skarkola, þykkvalúru, keilu, löngu, og litla karfa mældust háar og í mörgum tilfellum þær hæstu frá árinu 1996. Stofnar hlýra, lýsu, skrápflúru og tindaskötu eru hins vegar í sögulegu lágmarki.

Skýrslan Stofnmæling botnfiska að haustlagi 2018 – framkvæmd og helstu niðurstöður

 

Deila: