Humarhalar með kampavínssósu

Deila:

Þó hamborgarhryggur sé vinsælasti maturinn á aðfangadagskvöld, eru fleiri dagar yfir hátíðarnar, sem við gerum vel við okkur í mat. Nýútkomin uppskriftabók Hrefnu Rósu Sætran, Grillmarkaðurinn, getur komið að góðum notum, þegar velja skal uppskrift að góðum veislurétti. Við fundum þessa yndislegu uppskrift að humri í bókinni og hlökkum til að njóta réttarins um jólin og leyfum okkur að mæla, bæði með bókinni og þessum fína veislurétti.

Innihald:

800 g stórir og fallegir humarhalar
8 msk hvítlaukssósa frá CAJP

Kampavínssósa:

8 stk skalottlaukar
6 hvítlauksrif
1 hvítur laukur
1 flaska kampavín eða gott freyðivín.
500 ml rjómi
salt og pipar

Aðferð:

Saxið laukana gróft niður og svitið þá í potti upp úr olíu. Hellið kampavíninu út í og sjóðið niður um helming. Bætið rjómanum út í og sjóðið aftur niður um helming. Kryddið með salti og pipar.

Grillað:

Kljúfið humarhalana langsum. Hreinsið röndina í burtu en hafið humarinn í skelinni. Þerrið kjötið vel og penslið með hvítlaukssósunni. Grillið á rjúkandi heitu grilli á kjöthliðinni í 4-5 mínútur. Snúið svo humrinum við og grillið áfram í 2 mínútur á skelinni.

Eldað inni:

Kljúfið humarhalana langsum. Hreinsið röndina í burtu en hafið humarinn í skelinni. Þerrið kjötið vel og penslið með hvítlaukssósunni. Hitið pönnu þar til hún er blússandi heit. Hellið smá olíu á pönnuna og raðið humrinum á hana með kjöthliðina niður. Steikið í 2-3 mínútur. Setjið smá smjörklípu út á pönnuna og slökkvið undir.

Gott er að bera fram nýbakað brauð og einfalt salat með humrinum. Humar er svo gott hráefni að maður á ekki að flækja þetta of mikið.

 

Deila: