Mesta þorskveiðin við Færeyjar á þessum áratug

Deila:

Ferskfisklandanir í Færeyjum jukust um 2% í magni og 11% í virði á fyrstu 11 mánuðum nýliðins árs. Um er að ræða ferskan fisk annan en uppsjávarfisk. Þarna munar mestu um mikla aukningu á löndunum af þorski og ýsu.

Heildaraflinn af ferskum fiski á umræddu tímabili varð 70.656 tonn, sem er tæpum 1.400 tonnum meira en á sama tímabili 2017. Botnfiskaflinn varð nú 50.248 tonn, sem er vöxtur um 3,4%. Af þorski veiddust 15.800 tonn, sem er aukning um 5.000 tonn eða hvorki meira né minna en 44%.

Í ýsunni er vöxturinn hlutfallslega enn meiri eða 54,3%. Aflinn fór úr um 3.250 tonnum á umræddu tímabili 2017 í ríflega 5.000 tonn nú. Því er ljóst að síðasta ár verður metár í veiðum á þorski og ýsu við Færeyjar á þessum áratug.

Veiðar á ufsa hafa hins vegar dregist töluvert saman eða um 18,3%. Aflinn á umræddu tímabili í fyrra er 20.673 tonn, sem er samdráttur um 4.640 tonn.

Í flatfiskinum skiptir grálúðan mestu máli. Aflinn fyrstu 11 mánuðina í fyrra varð 4.100 tonn, sem er 845 tonnum minna en 2017.

Verðmæti heildaraflans varð 15 milljarðar íslenskra króna sem er aukning um 11%. Skýringin á mikilli hlutfallslegri aukningu umfram vöxt í afla er sú, að vöxtur er í verðmæti dýrari tegunda eins og þorsks og ýsu. Þar er verðmætisaukningin í kringum 50% í samræmi við aukinn afla, en í ufsanum fellur verðmætið um tæp 18% í samræmi við samdrátt í afla.

 

Deila: