Fleiri konur stunda sjóinn í Noregi

Deila:

Bæði sjómönnum og fiskiskipum og bátum fækkaði í Noregi á síðasta ári miðað við árið 2017. Konum sem hafa aðalstarf af sjómennsku hefur þó fjölgað lítillega.

Um áramótin voru skráð 6.067 fiskiskip og bátar og 11.228 sjómenn. Fiskiskipunum fækkaði um 1,1% og sjómenn voru 0,7% færri en um áramótin þar áður samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu Noregs.

Fyrir ári síðan voru fiskiskip og bátar 6.134. Þeim fjölgaði á árunum 2016 og 2017, en sú þróun hefur snúist við á síðasta ári. Bátum í stærðarflokknum 10 til 11 metrar hefur reyndar fjölgað og er fækkunin mest í smærri bátum. Bátum af stærðinni 15 til 21 metri og 21 metri að 28 metrum fækkaði um 7% og 6%, en í öðrum stærðarflokkum er fjöldinn nokkuð stöðugur.

Alls voru 9.542 sjómenn sem höfðu sjómennsku að aðalstarfi um áramótin, sem er fjölgun um 70. Þeim sem höfðu sjómennsku að hlutastarfi fækkaði hins vegar um 8% á síðasta ári og voru þeir 1.686 um áramótin. 324 konur voru skráðar sem sjómenn í aðalstarfi og hafði þeim fjölgað um 13.

Aldurssamsetning sjómanna í fullu starfi hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár, en annars hefur þróunin verið sú að fjöldi eldri sjómanna hefur aukist en yngri sjómönnum fækkað. Á síðasta ári voru 20% sjómanna undir þrítugu en 21% voru 60 ára og eldri.

Deila: