Heimshöfin hlýna hratt
Heimshöfin hlýna hraðar og meira en vísindamenn ætluðu og hafa aldrei verið heitari en á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjasta hefti bandaríska vísindatímaritsins Science. Hlýnunin ógnar lífríki sjávar með margvíslegum hætti og magnar upp öfgakennd veðurfyrirbæri á borð við fellibylji. Ný hitamet hafa verið slegin í heimshöfunum nánast árlega frá aldamótum samkvæmt frétt á ruv.is
Nýjar mælingar, meðal annars frá kerfi yfir 3.900 mælifleyta sem settar hafa verið á flot á heimshöfunum síðan um aldamót, leiða í ljós að hlýnunin hefur verið allt að 40 prósentum hraðari að meðaltali síðan 1971 en loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna gerði ráð fyrir í mati sínu 2013.
Ekkert lát á hlýnun jarðar
Skýrsla um þetta var unnin af fjölþjóðlegum hópi vísindafólks undir forystu Kínversku vísindaakademíunnar og kollvarpar endanlega öllum kenningum um að eitthvað lát eða „hlé“ hafi orðið á hlýnun Jarðar síðustu ár, að sögn höfunda. „Hlýnun Jarðar er staðreynd og er farin að hafa miklar afleiðingar nú þegar. Á því leikur enginn vafi, ekki nokkur!” segja skýrsluhöfundar.
Lengi tekur sjórinn við – en ekki án afleiðinga
Heimshöfin hafa lengi virkað sem dempari á hlýnun Jarðar með því að taka í sig yfir 90 prósent af hlýnun andrúmsloftsins um leið og það hefur tekið upp stóran hluta þess koltvísýrings sem maðurinn dælir gegndarlaust út í loftið.
Þetta leiðir óhjákvæmilega til hlýnunar sjávar, sem aftur leiðir til aukinnar úrkomu, hækkandi sjávarstöðu, eyðingar kóralrifja, skerðingar súrefnismagns í sjó og bráðnunar ísbreiða, jökla og heimskautaíss. Þar að auki hrekur þetta fjölmarga fiskistofna frá sínum fyrri heimkynnum og yfir á kaldari svæði.
Zeke Hausfather, einn höfunda skýrslunnar, segir hlýnun sjávar mun áreiðanlegri vísi um loftslagsbreytingar en mælingar á yfirborði Jarðar og nú séu komnar fram traustar sannanir fyrir því að sjórinn hlýni hraðar en áður var talið.
Nákvæmari upplýsingar en áður
Skýrslan í Science byggir á niðurstöðum fjögurra rannsókna sem gefnar voru út á árunum 2014 til 2017 og gefa samanlagt mun nákvæmari og áreiðanlegri mynd af hitabreytingum í heimshöfunum en hver þeirra um sig. Mælifleytuflotinn Argo gegnir þar lykilhlutverki en hann samanstendur af tæplega 4.000 sjálfvirkum smáfleytum „sem rekur um heimsins höf og kafa niður á 2.000 metra dýpi á nokkurra daga fresti og mæla hitastig sjávar, sýrustig, seltu og ýmislegt fleira á leiðinni upp úr kafinu,“ eins og segir í skýrslunni. Þar segir enn fremur að þessi mælifleytufloti hafi „skilað stöðugum og víðtækum upplýsingum um hitastig sjávar síðan um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar.“
Hlýnun sem hækkar yfirborð sjávar um 30 sentímetra
Niðurstöðurnar sýna ennfremur að hlýnun sjávar helst í hendur við hlýnun andrúmsloftsins. Ef ekkert verði gert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, segja skýrsluhöfundar, þá muni efstu 2.000 metrar sjávar hlýna um 0,78 gráður á þessari öld.“
Það virðist ekki ýkja há tala, en þessi hlýnun veldur því engu að síður að sjórinn mun þenjast út og yfirborð sjávar þar af leiðandi hækka um 30 sentímetra umfram það sem hlotist getur af bráðnun jökla og heimskautaíss.
Hlýjasta ár sögunnar í heimshöfunum
„Útlit er fyrir að 2018 verði fjórða hlýjasta ár sögunnar á yfirborði Jarðar,“ segir Hausfather, „en það verður alveg örugglega hlýjasta ár sögunnar í heimshöfunum, rétt eins og árin 2017 og 2016 voru.“ Og Lijing Cheng, vísindamaður við Loftslagsvísindastofnun Kínversku vísindaakademíunnar og aðalhöfundur skýrslunnar, segir ný hitamet hafa verið slegin í heimshöfunum nánast á hverju ári frá aldamótum.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.