Flytur erindi um lífríki miðsjávarlaga

Deila:

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar, fimmtudaginn 17. janúar mun Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, kynna alþjóðlega rannsókn á lífríki miðsjávarlaga; MEESO rannsóknarverkefnið. Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og hefst kl. 12:30 og er öllum opin. Málstofunni verður jafnframt streymt á YouTube rás stofnunarinnar.

Ástþór Gíslason

Hafrannsóknastofnunin er þátttakandi í alþjóðlegu fjögurra ára rannsóknaverkefni, MEESO (Ecologically and economically sustainable mesopelagic fisheries), sem fengið hefur styrk frá Evrópusambandinu og beinist að lífríki svonefndra miðsjávarlaga, en það eru lög eða belti lífvera, sem koma fram á dýptarmælum, og er að finna á tiltölulega miklu dýpi (~2-800 m) á úthafssvæðum í flestum heimshöfum, m.a. við Ísland.

Í þessum lögum er fjölbreytileiki lífríkisins mjög mikill og er þar að finna mergð tegunda, sérstaklega fiska, hvelja, smokkfiska, rækja, ljósáta og annarra svifdýra. Takmörkuð fyrirliggjandi gögn benda til þess að magn lífvera í miðsjávarlögunum sé geysimikið. Þannig gera nýlegar áætlanir um fiskmagn í þessum lögum ráð fyrir að heildarlífmassi þeirra sé af stærðargráðunni 10.000 milljónir tonna, eða um 100 sinnum meiri en heildarfiskafli í heiminum. Talið er líklegt að sumar tegundir megi nýta, og í ljósi þess hversu mikið er af þeim virðist eftir nokkru að slægjast ef til nýtinga miðsjávarlífveranna kemur.

Vitneskja um miðsjávarlög er takmörkuð, en með MEESO rannsóknaverkefninu er stefnt að því að auka þekkingu á magni, tegundasamsetningu, framleiðni og nýtingarmöguleikum lykiltegunda, og hlutverki miðsjávarlaganna í kolefnisbúskap hafsins. Í erindinu verður gerð grein fyrir fyrirliggjandi vitneskju um miðsjávarlög við Ísland og aðkomu Hafrannsóknastofnunarinnar að MEESO rannsóknaverkefninu.

 

Deila: