Máli gegn Umhverfisstofnun, Arnarlax og Matvælastofnun vísað frá dómi

Deila:

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með úrskurði 18. janúar fallist á kröfur Arnarlax, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar og vísað frá kröfum fyrirtækjanna Akurholts og Geiteyrar, sem eru veiðiréttarhafar í Haffjarðará. Veiðiréttarhafarnir höfðu krafist þess að starfs- og rekstrarleyfi Arnarlax í Arnarfirði yrðu ógilt. Arnarlax, sem er ASC vottað fyrirtæki, er stærsta fiskeldisfyrirtækið hér á landi. Frá þessu er greint á heimasíðu Arnarlax.

„Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að kröfur veiðiréttarhafanna miðuðu að því að fá dóm sem legði bann við að laxeldi í sjókvíum væri stundað á Íslandi. Vísaði dómurinn til þess að löggjafinn og stjórnvöld hefðu um áratugaskeið tekið með í reikninginn áhrif fiskeldis á náttúrulega laxastofna í veiðiám á Íslandi, við ákvarðanatöku um hvort og á hvern hátt og í hversu miklum mæli fiskeldi skyldi heimilað” segir Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu, sem flutti málið fyrir hönd Arnarlax.

 

Kristín Edwald

„Þessu til viðbótar kom fram í dóminum að óumdeilt væri að staðbundin umhverfisáhrif starfsemi Arnarlax næðu ekki til þess hafsvæðis þar sem Haffjarðará rynni til sjávar. Niðurstaða dómsins er því sú að veiðiréttarhafarnir hafi ekki orðið fyrir tjóni af starfsemi Arnarlax og að þeir hafi ekki sýnt fram á að starfsemin skapaði hagsmunum þeirra sérstaka hættu. Þeir hafi því ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfur sínar” segir Kristín Edwald.

„Arnarlax hefur frá árinu 2009 farið í gegnum ýtarlegar leyfisveitingar sem hafa m.a. farið í gegnum hefðbundið ferli hjá Skipulagsstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun þar sem sömu eða sambærilegir hagsmunaaðilar hafa komið á framfæri sínum sjónarmiðum og látið reyna á gildi leyfisveitinganna m.a. fyrir úrskurðarnefndum. Til viðbótar því að hafa þurft að greiða sinn eigin lögmannskostnað þurfa veiðiréttarhafarnir einnig að greiða lögmannskostnað Arnarlax, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar” segir Kristín.

Veiðiréttarhafarnir hafa tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðarins til þess að kæra umrædda niðurstöðu til Landsréttar.

 

Deila: