Eldisgjald of snemma og í rangan vasa

Deila:

Fiskeldisfyrirtæki telja of snemmt að borga fyrir eldissvæði á meðan greinin er enn að byggja sig upp. Sveitarfélög vilja að gjaldið renni til þeirra, en ekki í ríkiskassann, og að stofnanir þeirra fái eftirlitsverkefni tengd eldinu. Frá þessu er greint á ruv.is

Samkvæmt drögum að frumvarpi um gjald vegna nýtingar eldissvæða í sjó eiga fiskeldisfyrirtæki að byrja að borga fyrir eldissvæðin á næsta ári, 10 krónur fyrir hvert kíló í leyfi og 15 krónur frá 2023. Helmingi minna fyrir ófrjóan fisk. Laxar fiskeldi í Reyðarfirði eru með sex þúsund tonna leyfi sem þýðir 60 miljónir á ári í upphafi eða um það bil jafn mikið og þrjár eldiskvíar kosta.

„Þetta er mjög óheppilegt að fá svona skatta í upphafi í uppbyggingarfasanum. Við þurfum eiginlega að fá andrými til að byggja upp áður en farið er að greiða,“ segir Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi. Aðspurður um hvort fyrirtækið sé mótfallið því að greiða þau gjöld sem talað sé um í frumvarpinu segir hann. „Nei alls ekki. Það er enginn á móti því að greiða gjöldin en þetta er meira spurning um tímapunktinn sem þetta er sett á.“

Fram kemur í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að á árunum 2002-2017 hafi greinin tapað samtals 12 milljörðum króna en nú eru tekjur farnar að aukast eftir mikla uppbyggingu.

Sveitarfélög hafa einnig gagnrýnt atriði í frumvarpinu. „Fyrst og síðast erum við ósátt við það að gjaldið eða skatturinn sem á að leggja á úthlutuð tonn til fiskeldisfyrirtækjanna skuli ekki renna til sveitarfélaganna eins og ráð var fyrir gert í vinnu undirbúningsnefndarinnar og er í Noregi. Við höfum áhyggjur af því að með þessu fáum við litlar sem engar tekjur af þessum iðnaði,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Þá kemur fram í umsögn sveitarfélagsins að réttast væri að Heilbrigðiseftirlit Austurlands og Náttúrstofa Austurlands kæmu meira að eftirliti með fiskeldi; verkefnum hins opinbera sem verða til í kringum bæði fiskeldi og sjávarútveg ætti að sinna í heimabyggð. „Það eru tæki til þess að sjá um eftirlitið úti á landi. Hér er stærsta fiskihöfn landsins og tæplega 30% af útflutningi þjóðarinnar kemur frá Fjarðabyggð þannig að það er rosalega mikilvægt að þetta sé vel gert og undir skýrri stjórn. Því teljum við rétt að sá skattur sem á að leggja á úthlutaðan kvóta til fiskeldisfyrirtækjanna renni til sveitarfélaganna en ekki suður til Reykjavíkur,“ segir Karl Óttar.

 

Deila: