Vaxandi þorskafli við Færeyjar

Deila:

Landanir af fiski, bolfiski og skelfiski, í gegnum löndunarþjónustuna í Færeyjum urðu alls rúmlega 74.000 tonn á síðasta ári sem er um þúsund tonnum eða 1,4% meira en árið áður. Landanir á ýsu og þorski jukust um 50%, en drógust saman í öðrum fisktegundum, einkum ufsa. Aflaverðmætið var um 850 milljónir færeyskra króna sem svarar til 15,5 milljarða íslenskra króna. Það er 10% vöxtur frá árinu áður. Uppsjávarfiskur er ekki inni í þessum tölum.

Afli og aflavermæti hefur verið lágt mörg undanfarin á. Betri aflaár voru frá aldamátum fram til ársins 2007. Að meðaltali námu landanir 125.000 tonn á því tímabili. Síðan 2007 hefur ferskfiskafli í gegnum löndunarþjónustuna verið að meðaltali 75.000 tonn. Í fyrr kommu á land 74.000 tonn sem var örlitlu  meira en árið áður.

Til landana telst sá fiskur, sem fer í gegnum löndunarþjónustuna (Afreiðingarskipanina). Um er að ræða ferskan fisk að langmestu leyti  sem færeyskir bátar bera að landi af fiskimiðunum við Færeyjar, Ísland og á Flæmska hattinum. Uppsjávarfiskurinn er ekki inni í þessum tölum.

Aflamagn og aflaverðmæti fylgjast ekki alltaf að. Í þessu tilfelli ræður verðið á fiskinum upp úr sjó mestu máli. Aflaverðmætið hefur farið lækkandi undanfarin ár. Á árunum 2000 til 2007 var það að meðaltali 1,2 milljarðar færeyskra króna, sem svarar til 22 milljarða íslenskra króna. Síðustu fimm árin hefur verðmæti aflans verið að meðaltali um tæplega 14 milljarðar íslenskra króna. Í fyrra fór verðmætið svo upp í 16 milljarða íslenskra króna, sem er 10% vöxtur frá árinu 2017. Það eru fyrst og fremst auknar landanir á þorski og verðmæti þeirra sem lyfta heildarverðmætinu upp.

Mikið barst að landi af þorski í fyrra, tæplega 17.000 tonn, sem er um helmingi meira en árið 2017. Sömuleiðis jókst verðmæti þorsksins verulega, fór úr 4 milljörðum íslenskra króna í 6 milljarða sem er vöxtur um 52%. Þorskafli hefur verið lítill mörg síðustu ár, að meðaltali um 10.000 tonn á ári. Aflinn í fyrra er því mun meiri en undanfarin ár, en er þó miklu minni en árin 1996 til 2005. Þá var þorskafli miklu meiri og varð í einstaka ári meira en tvöfalt meiri en á síðasta ári.

Ýsuaflinn jókst einnig mikið á síðasta ári, um 2.000 tonn og  verðmætið um 456 milljónir króna. Aflinn er enn tiltölulega lítill, þó árið 2018 sé það besta í áratug. Þá var landað ríflega 5.400 tonn borið saman við 20.000 tonn að meðaltali árin 2000 til 2007.

Á sama tíma og veiði af þorski og ýsu hefur verið lítið, hefur veiðst nokkuð vel af ufsa. En nú hefur veiðin á honum byrjað að dala. Aðeins veiddust 21.000 tonn í fyrra, sem er fall um 5.000 tonn frá árinu 2017. Til samanburðar var aflinn á árunum 2005 til 2010 að meðaltali 53.000 tonn.

 

Deila: