Óska lengri greiðslustöðvunar

Deila:

Þriggja mánaða greiðslustöðvun Hólmadrangs rennur út um mánaðamótin. Viktoría Rán Ólafsdóttir , kaupfélagsstjóri segir að óskað verði eftir framlengingu um aðra þrjá mánuði. Fundur með kröfuhöfum var í fyrradag og er þess vænst að þeir telji sínum hagsmunum betur borgið með framlengdri greiðslustöðvun. Viktoría var bjartsýn á að það yrði þeirra afstaða. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum mun úrskurða um erindið innan sjö daga frá því það er lagt fram. Hólmadrangur er rækjuvinnsla á Hólmavík.

Viktoría segir að reksturinn hafi gengið bærilega á greiðslustöðvunartímabilinu, greiddar hafa verið niður skuldir þar sem reksturinn hefur skilað afgangi upp í kröfur. Hún telur að fjárhagsstaðan muni verða yfirstíganleg. Breytt var um rekstur og eftir greiðslustöðvun kaupir Hólmadrangur ekki rækjuna heldur vinnur hana í verktöku og nýtur MSC vottun fyrirtækisins til að selja hana til Evrópu, einkum til Bretlands.

Fjöldi starfsmanna er um 20 og hefur verið óbreyttur síðustu mánuði. Verksmiðjan hefur verið í fullum rekstri nær alla dagana frá greiðslustöðvun samkvæmt frétt af bb.is.

 

Deila: