Sögufrægt skip í skveringu

Deila:

„Þetta glæsilega skip var smíðað sem fiskiskip. Þeir ætluðu að veiða á honum síld og loðnu og annað slíkt. Það var nótagryfja aftur á honum og aðstaða og búnaður fyrir troll. Þeir voru með mjölvinnslu frammi í honum og kælitanka fyrir lýsi. Þegar til kom var svo ekki grundvöllur fyrir útgerðinni á þessum fiskitegundum og þá var honum breytt til veiða á sel og hval. Þeir voru um tíma í þeim veiðum, en svo dró þar undan líka. Eftir það keypti norska ríkið bátinn og gerði út sem rannsóknarskip.“

Svo segir Ómar Erlingsson skipstjóri á norska rannsókna- og eftirlitsskipinu Lance, sem nú er í skveringu hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík. Skipið er smíðað 1978 og á sér merkilega sögu.

Einkaaðilar keyptu svo skipið af norska ríkinu gerðu út og leigðu til ýmissa rannsóknaverkefna. Með annars var farið með hann inn í Norður-Íshafið þar sem hann var frystur inni í ísnum við rannsóknar. Það gekk ekki alveg eins og skyldi því það var svo mikið rek á ísnum. Það svo reynt árið eftir og þá með risavaxið ankeri og allar græjur til að halda bátnum föstum á sömu staðsetningu. En það fór eins og fyrra árið, það slitnaði bara allt.

„Báturinn hefur svo verið tvisvar á Norðurpólnum á 0° og var þar inni í ísbreiðunni. Ísinn þrengdi svo að honum að hann lyftist upp um 1,80 metra. Þegar þeirri hæð var náð brotnaði hann niður aftur vegna þyngdarinnar. Þetta gerðist tvisvar sinnum.

Það þarf þykkt og sterkt stál til að þola svona átök enda er það 36 millimetra þykkt í stefninu og 28 millimetrar í síðunum og bara 30 sentímetrar milli banda,“ segir Ómar.

Ómar Erlingsson og Brynjólfur Sigurðsson skipstjórar. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

„Nú erum við að fara með bátinn í klössun í slippnum hérna í Rrykjavík. Aðaleigandinn tekur betra að fara með bátinn í slipp hér á Íslandi en í Noregi. Hér stendur allt eins og stafur á bók, hvort sem er hjá Stálsmiðjunni eða Skipasmíðastöð Njarðvíkur, en sömu söguna er ekki að segja um norsku slippina. Menn fá tilboð þar sem er svo klínt á þau í miklum mæli. Ég kom hérna fyrir nokkru með Ísbjörninn í slipp, en hann er krabbabátur í dag. Eigandinn hefur verið rosalega ánægður með þá þjónustu sem hann fær hér á Íslandi.“

Ekki liggur alveg fyrir hvaða verkefni eru framundan. „Við komum seint hingað núna vegna þess að það gat verið að við færum í björgunarleiðangur norður fyrir Svalabarða. Það strandaði þar togari sem reyna á að bjarga. Það er búið að dæla úr honum allri olíu úr tönkum. Síðan þarf að dæla úr vélarrúminu, en þar er um 30 sentímetra olíuborð ofan á vatninu og talað var um að dæla því hér um borð og vera með kafara við það til að leita uppi leka og þétta skipið. Svo gæti verið kvikmyndaverkefni við Grænland í 10 til 14 daga eftir slipp og hugsanlega kortagerð við Svalbarða fljótlega,“ segir Ómar.

Svo er skipið nýtt sem háskólaskip við Svalbarða á sumrin. Þá er verið að taka botn- og jarðvegssýni og greina þau. Þetta eru um þriggja mánaða verkefni í senn. Þá eru nemendur og kennarar um borð. Hver nemandi er um borð í viku til 10 daga í senn og skipt er um í Longyearbyen á Svalbarða. Góðar aðstæður eru fyrir 40 manns um borð og þar er meðal annars að finna vandaða rannsóknastoofu.

Brynjólfur Sigurðsson er skipstjóri hjá sömu útgerð og brá sér með í þessa ferð til Íslands, en hann er síðan að fara á annað skip í sömu eigu til að þjónusta olíuiðnaðinn í Noregi. Þeir eru þá til reiðu ef leki kemur upp ásamt örðu skipi. Þá lögð „girðing“ utan um olíuflekkinn sem kemur upp og honum síðan dælt um borð í Lance.

Ómar er búinn að vera hjá þessu fyrirtæki frá 2010 og Brynjólfur frá 2012 en hann hefur verið í fragtinni inni á milli á milli. Báðir eru þeir Grindvíkingar og hafa stundað sjómennsku fjarri heimahögunum í mörg ár.

Deila: