Gott ár hjá Marel

Deila:

Rekstur Marel gekk vel á síðasta ári og skilaði hann 15% aukningu á tekjum. Fjórði hluti ársins var sérstaklega hagstæður með mettekjum.

„Við erum ánægð með niðurstöðu fjórða ársfjórðungs og ársins í heild. Í fjórða ársfjórðungi skilum við mettekjum, 331 milljón evra, sem er 12% aukning samanborið við sterkan fjórða ársfjórðung árið á undan. Tekjur á árinu jukust um 15%, þar af er innri vöxtur 12,5%. Marel hefur einn mesta fjölda uppsettra vinnslukerfa í heiminum. Sá grunnur og aukin áhersla á þjónustu við viðskiptavini skila stöðugum viðhaldstekjum sem nema 35% af heildartekjum félagsins. EBIT framlegð nam 14,6% á fjórðungnum, líkt og á árinu,” segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel í færslu á heimasíðu félagsins.

„Pantanir á fjórða ársfjórðungi námu 296 milljónum evra og hækkuðu um 5% á milli ára en 10% ef miðað er við síðasta ársfjórðung. Pantanir á árinu námu 1.184 milljónum evra og jukust lítillega í kjölfar kröftugs vaxtar fyrra árs. Viðskiptahindranir og umrót á alþjóðamörkuðum valda því að erfiðara er að tímasetja pantanir. Með alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti og framsæknu vöruframboði er Marel engu að síður í leiðandi stöðu til þess að hjálpa matvælaframleiðendum að aðlagast breyttum aðstæðum á markaði og jafna framboð og eftirspurn.

Áfram gerum við ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi að meðaltali 4-6% á ári og markmið okkar er eftir sem áður að vaxa hraðar en markaðurinn.

Með firnasterku sjóðstreymi höldum við áfram að fjárfesta í nýsköpun, markaðssókn og innviðum. Við höldum einnig áfram að styrkja vöruframboð félagsins og alþjóðlega markaðssókn með yfirtökum sem styrkja okkur í þeirri vegferð að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. Á síðasta ári keyptum við þýska félagið MAJA fyrir 35 milljónir evra ásamt því að kaupa eigin bréf og greiða arð fyrir samtals 100 milljónir evra. Sterkt sjóðstreymi og góð rekstrarniðurstaða viðheldur skuldahlutfallinu í x2.0 nettó skuldir/EBITDA þrátt fyrir miklar fjárfestingar á tímabilinu.

Áform um tvíhliða skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlega kauphöll, til viðbótar við þá íslensku, ganga samkvæmt áætlun. Valið stendur nú fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn. Markmið með tvíhliða skráningu er að auka seljanleika bréfa frá degi til dags og styðja við frekari vöxt og virðisaukningu,“ segir Árni Oddur ennfremur.

Deila: