12000 hestafla slökkvibyssur prófaðar

Deila:

Varðskipið Þór er afar vel tækjum búið. Þar er meðal annars að finna svokallaðar FiFi slökkvibyssur sem eru ákaflega afkastamiklar en alls geta þær dælt um 3200 rúmmetrum af sjó á klukkustund. Áhöfnin á varðskipinu hélt æfingu í gær þar sem búnaðurinn var prófaður. Tilgangurinn með æfingunni var að viðhalda þjálfun áhafnarinnar og kanna virkni búnaðarins.
Dælurnar eru öflugar og knúnar áfram af aðalvélum skipsins og því má segja að þær séu alls 12000 hestöfl. Æfingin gekk vel en mikilvægt er að áhöfnin geti brugðist við ef eldur kemur upp í skipum líkt og gerðist árið 2013 þegar flutningaskipið Fernanda brann en þá vöru slökkvibyssurnar notaðar. Að auki er hægt að nota úðakerfi skipsins við slökkvistörf í landi ef eldur kemur upp nálægt hafnargörðum en úðararnir gera skipinu kleift að komast að eldinum en þeir hylja skipið nær alveg meðan á slökkvistarfi stendur.

Deila: