Þetta er alvarlegt

Deila:

Forsætisráðherra lítur það alvarlegum augum að Seðlabankann hafi skort lagaheimildir til sekta Samherja um fimmtán milljónir króna. Forsætisráðuneytið birti í dag greinargerð bankaráðs Seðlabankans um málið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að kalla eftir skýringum frá bankanum samkvæmt frétt í ruv.

Bankaráð Seðlabanka Íslands telur að Seðlabankanum hafi ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að leggja stjórnvaldssekt á Samherja með vísan til ákvarðana í svokölluðum sambærilegum málum.
Þetta kemur fram í greinargerð sem bankaráðið vann að beiðni Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í greingargerðinni segir:

„Seðlabankinn þarf að fara yfir Samherjamálið og einnig önnur mál sem lauk með sáttum eða sektum“

Og jafnframt segir:

„Þeir sem borið hafa kostnað eða tjón vegna mistaka í stjórnsýslu Seðlabankans kunna að eiga rétt á skaðabótum úr hendi Seðlabankans.“

Forsætisráðherra fer nú yfir greinargerðina.

„Það liggur hins vegar fyrir að Seðlabankinn hefur ákveðið að endurupptaka öll mál af þessum toga,“ segir Katrín.

Greinargerðin verði nýtt í þá heildarendurskoðun sem standi yfir á lögum um Seðlabankann.

„Þetta er alvarlegt. Það liggur algjörlega fyrir. Eins og kemur fram í greinargerðinni þá voru þetta fordæmalausar aðstæður. Þegar höftin voru sett á í kjölfar Hruns þá eru það auðvitað aðstæður sem kannski enginn var undirbúinn fyrir. En eigi að síður er það stóralvarlegt að það hafi verið fram á grundvelli heimilda sem ekki stóðust. Þannig að það er sjálfsögðu mjög mikilvægt að við vöndum vel til verka núna í framhaldinu,“ segir Katrín.

Nýtur seðlabankastjóri trausts hjá þér?

„Ja, ég eins og ég sagði áðan. Ég á eftir að kalla eftir frekari skýringum á einstökum atriðum. Þannig að við munum halda áfram að fara yfir málið í kjölfar þessarar greinargerðar. Það er í sjálfu sér ekki tímabært að tjá sig meira um það á þessu stigi,“ segir Katrín.

 

Deila: