Rétti tíminn fyrir ufsa

Deila:

Ísfisktogarar HB Granda sækja nú meira á suðvesturmið en gert hefur verið það sem af er vetri. Vetrarvertíð er handan við hornið og sá þorskur og ufsi sem veiðist á heimamiðum togaranna er yfirleitt rígvænn og mjög góður fiskur.

,,Við höfum verið á Eldeyjarbanka allan þennan túr og aflinn er mjög blandaður. Við höfum verið að fá ufsa, karfa, þorsk og ýsu og mér telst til að aflinn nú þegar einn dagur er eftir af veiðiferðinni sé um 120 til 130 tonn,“ sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey AK, er rætt var við hann á heimasiðu HB Granda.

Að sögn Eiríks hófst veiðiferðin sl. föstudag en skipið átti að koma til hafnar í Reykjavík snemma í gærmorgun.

,,Það er búið að vera leiðindaveður mest allan túrinn en það er gott veður í dag og vonandi helst það eitthvað áfram. Það eru komin hrogn í ufsann og þorskinn og við erum búnir að ganga frá nokkrum tonnum af hrognum. Það er þó enginn kraftur kominn í vertíðina og veiðina en ufsinn og þorskurinn er stór og góður. Við höfum ekki borið okkur sérstaklega eftir karfa en hann kemur alltaf með,“ segir Eiríkur en hann býst fastlega eftir því að aukin áhersla verði lögð á að stunda suðvesturmiðin á næstu vikum.

,,Við reynum að ná sem mest af ufsa hér syðra og nú er rétti tíminn til þess,“ sagði Eiríkur Jónsson.

 

 

Deila: