Svipaður afli hjá Eyjunum

Deila:

Það sem af er ári hefur afli hjá Vestmannaey VE og Bergey VE verið svipaður og á sama tíma í fyrra. Janúar var hagstæður veðurfarslega og þá veiddu skipin rétt tæplega 800 tonn og var uppistaða aflans þorskur og ýsa. Til samanburðar var veiðin um 750 tonn í janúar í fyrra samkvæmt frá frá Síldarvinnslunni.

Yfirstandandi febrúarmánuður hefur aftur á móti verið erfiður veðurfarslega og hefur þess vegna ekki verið unnt að sækja á þau mið sem venjulega er veitt á um þetta leyti árs. Þrátt fyrir ótíðina hafa skipin þó fiskað svipað magn í mánuðinum og í fyrra eða 950 tonn.

Að undanförnu hefur mest verið fiskað við Vestmannaeyjar og þá einkum hlémegin við eyjarnar. Síðan hefur verið skotist inn og landað í brælustoppum. Á þessum miðum fæst í reynd ekkert nema þorskur en reynt er að skjótast annað þegar færi gefst til að ná í aðrar tegundir. Sl. sunnudag og mánudag náðist til dæmis að kroppa í ufsa og karfa á miðum fyrir austan Vík.

 

Deila: