Verður að breyta úthlutun markrílveiðiheimilda?

Deila:

Samkvæmt gildandi lögum verður sjávarútvegsráðherra að ákveða leyfilegan heildarafla makríls fyrir næsta veiðitímabil og má aðeins byggja á veiðireynslu þriggja bestu veiðitímabila af síðustu sex. Ef hann gerir þetta myndi hann þó líklega skapa ríkinu skaðabótaskyldu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti starfshóps sjávarútvegsráðherra sem kannaði viðbrögð við dómi Hæstaréttar vegna ólöglegrar úthlutunar á makríl í tíð Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Ríkið tapaði dómsmálum fyrir Hæstarétti í desember síðastliðnum. Þar var viðurkennd bótaskylda ríkisins vegna þess hvernig staðið var að úthlutun aflaheimilda í makríl árin 2011 til 2014. Viðkomandi fyrirtæki eru Huginn og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar getur verið um milljarða króna að tefla

Starfshópurinn telur að Alþingi hafi rúmar heimildir til að breyta lögum um fiskveiðistjórnun. Því sé lagabreyting sem felur í sér hóflega skerðingu á aflahlutdeildum, á grundvelli lögmætra markmiða, ekki til þess fallin að skapa bótaskyldu. Alþingi eigi nokkra valkosti, svo sem að miða við veiðireynslu áranna 2005 til 2010, festa núverandi úthlutun í sessi, miða veiðireynslu við lengra tímabil eða ákveða aflahlutdeild með blönduðum hætti. Þetta þurfi þó að gerast skjótt, fyrir næsta fiskveiðitímabil.

Með tveimur dómum Hæstaréttar Íslands í desember 2018 var viðurkennd skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga, en talið var að á árunum 2011 til 2014 hafi skipum þeirra verið úthlutað minni aflaheimildum til veiða á makríl en skylt var samkvæmt lögum.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að fara yfir þýðingu þessara dóma og veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi þær ákvarðanir sem taka þarf.

Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu til ráðherra og er í henni m.a. farið yfir valdheimildir ráðherra að óbreyttum lögum og jafnframt stillt upp helstu valkostum ef valin er leið lagasetningar.

Starfshópinn skipuðu Arnór Snæbjörnsson yfirlögfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og lögmennirnir Hulda Árnadóttir og Jóhannes Karl Sveinsson.

 

 

Deila: