Milljóna tap vegna loðnuleysis

Deila:

Bæjarsjóður Fjarðabyggðar verður fyrir 160 milljóna króna tekjutapi verði algjör loðnubrestur og hafnarsjóður tapar 100 milljónum til viðbótar. 15 manns hefur þegar verið sagt upp í sveitarfélaginu vegna þess að engin loðna hefur fundist, að því er kemur fram í samantekt fjármálastjóra um áhrif loðnubrests á sveitarfélagið og sagt er frá á ruv.is.

„Við erum náttúrulega með 47% af loðnukvótanum hérna í Fjarðabyggð. Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif ef engin loðna kemur á sveitarfélagið allt. Fyrirtækið sem eru að þjónusta þennan iðnað þau verða fyrir þessu líka eins og til dæmis Tandraberg sem hefur þurft að sega upp fólki hjá sér,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Þar eru þrjú fyrirtæki umsvifamikil í veiðum og vinnslu á loðnu og öðrum uppsjávartegundum: Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, Eskja á Eskifirði og Síldarvinnslan í Neskaupstað. Á loðnuvertíð er unnið allan sólarhinginn við að heilfrysta loðnu, bræða hana í fiskimjöl og kreista úr henni hrogn.  Fram kemur í samantektinni að launatekjur íbúa í Fjarðabyggð muni að óbreyttu lækka um 5% eða um 1,25 milljarða króna.

Engin loðna hefur enn fundist en tvö skip leita nú til þrautar fyrir sunnan land en þar sást til loðnu um helgina.

Bæjarráð hvatti í morgun stjórnendur stofnana sveitarfélagsins til að gæta aðhalds í rekstri en hafnarsjóður verður af gjöldum og sveitarsjóður tapar útsvarstekjum. „Það er talið að þetta hafi áhrif á hafnarsjóðinn upp á 100 milljónir en tekjur A-hluta lækki um 160 milljónir. Við vonum að þetta verði minna áfall heldur en orðið er en ef ekki þá verðum við að fara yfir reksturinn hjá okkur og skoða hvar við getum mögulega dregið saman. Maður tínir ekki 160 milljónir upp af gólfinu,“ segir Karl Óttar.

 

Deila: