Áhrif loðnubrests í Fjarðabyggð eru mikil og víðtæk

Deila:

Fjármálastjóri Fjarðabyggðar hefur tekið saman greinargerð um áhrif loðnubrests á sveitarfélagið. Hér skulu birtar nokkrar lykilupplýsingar sem fram koma í greinargerðinni.

 

  • Í Fjarðabyggð var tekið á móti 47% alls loðnuafla á árinu 2018 en á síðustu fimm árum hefur þetta hlutfall verið á bilinu 34% – 47%.
  • Útflutningsverðmæti þeirrar loðnu sem unnin var í Fjarðabyggð á árinu 2018 nam um tíu milljörðum króna.
  • Loðnubrestur mun lækka launatekjur starfsmanna í sjávarútvegi um rúmlega 13% frá árinu 2018 og að öðru óbreyttu munu launatekjur íbúa sveitarfélagsins lækka um 5% eða um 1,25 milljarð króna.
  • Að öðru óbreyttu mun loðnubrestur leiða til þess að tekjur stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna í sveitarfélaginu dragist saman um fimmtung frá árinu 2018.
  • Gera má ráð fyrir að velta fyrirtækja sem þjóna sjávarútvegnum beint lækki um nálægt 600 milljónum króna.
  • Samdrátturinn vegna loðnubrestsins mun hafa smitandi áhrif um allt samfélagið. Til dæmis mun draga úr fjárfestingum og þjónustukaupum. Eins mun áhrifa án efa gæta á fasteignamarkaði.
  • Gera má ráð fyrir að staðgreiðslutekjur sveitarfélagsins Fjarðabyggðar lækki um 160 milljónir króna á milli ára vegna loðnubrests. Þá má gera ráð fyrir að tekjur hafnarsjóðs lækki um 100 milljónir. Þannig munu heildartekjur sveitarfélagsins lækka um 260 milljónir króna ef engin loðna veiðist.

 

Enn er loðnu leitað og enn er haldið dauðahaldi í þá von að nægjanleg loðna finnist til að unnt sé að heimila einhverjar veiðar. Hafa skal í huga að verðmætasti hluti hverrar vertíðar er undir lokin þegar hrognavinnsla fer fram.

 

Deila: