Vinna karfa og grálúðu í stað loðnu
Venjulega er þessi árstími einhver mesti annatími starfsfólksins í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta er sá tími sem loðnuvertíð hefur gjarnan verið í hámarki. Nú er hins vegar rólegra andrúmsloftið í verinu; starfsfólkið sinnir vinnslu á grálúðu og karfa í dagvinnu í stað þess að vinna loðnu á vöktum allan sólarhringinn.
Loðnuleysið hefur svo sannarlega mikil áhrif á starfsfólk fiskiðjuversins og þessi tími ársins, sem hefur verið sá tími sem skilað hefur einna mestu í launaumslagið, hefur yfir sér allt annað og dauflegra yfirbragð.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Eyðun Simonsen verkstjóra og spurði hann út í grálúðu- og karfavinnsluna. „Karfinn kemur frá okkar eigin skipum og hann er einnig keyptur á markaði. Grálúðan kemur hins vegar frá Önnu EA. Nú er verið að vinna grálúðuafla úr annarri veiðiferð Önnu. Þessi vinnsla hentar okkur mjög vel. Loðnuleysið er þungt högg fyrir allt okkar fólk því er mikilvægt fyrir okkur að hafa þessi verkefni.“ segir Eyðun.
Myndir Smári Geirsson.