11 togarar með yfir 2.000 tonn af þorski

Deila:

Þorskaflinn í íslensku lögsögunni það sem af er ári er orðinn 131.000 tonn miðað við slægðan fisk. Leyfilegur heildarafli er 213.000 tonn af slægðum þorski og því standa eftir óveidd 82.000 tonn. Hratt gengur á kvótann þessa dagana því vel fiskast í öll veiðarfæri og margir á sjó á hávertíðinni.

Það eru togararnir sem að vanda eru afkastamestir í þorskveiðinni. 11 þeirra eru komnir með yfir 2.000 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu og þar af þrír yfir 3.000 tonn. Þeir afkastamestu eru Drangey SK með 3.780 tonn, næst kemur Björg EA með 3.415 tonn og þá Málmey SK með 3.210 tonn.

Næstu togarar eru Björgvin EA með 2.876 tonn, Sólberg ÓF með 2.796, Hjalteyrin EA með 2.766 tonn, Björgúlfur með 2.725 tonn, Kaldbakur EA með 2.613 tonn, Sóley Sigurjóns GK með 2.518 tonn, Páll Pálsson ÍS með 2.400 tonn og Gullver NS með 2.226 tonn.

Rétt er að geta þess að Sólbergið hefur auk þessa tekið tæp 1.500 tonn af þorski í Barentshafi og er því í raun með mestan þorskafla íslenskra skipa á þessu fiskveiðiári. Kaldbakur og Björgúlfur hafa einnig sótt þorsk í Barentshafið, Björgólfur 667 tonn og Kaldbakur 548 tonn.

Benda má á að fimm af þessum togurum eru gerðir út af Samherja og þrír af Fisk Seafood. Þá er rétt að leggja áherslu á að hér er miðað við slægðan fisk.

Deila: