Minni afli úr Barentshafi

Deila:

Þorskafli íslenskra skipa úr lögsögu Noregs í Barentshafi varð í ár 5.430 tonn. Það er 156 tonnum minna en aflamarkið. Auk þess er meðafli af ýsu og öðrum tegundum. Sex skip stunduðu veiðarnar nú og var Sólberg ÓF með mestan afla þeirra, 1.479 tonn af þorski.

Næstu skip voru Kleifaberg með 1.074 tonn af þorski, Örfirisey RE með 1.010 tonn, Björgúlfur EA með 667 tonn, Arnar HU með 652 tonn og Kaldbakur EA með 548 tonn.

Ekki hefur enn verið gefinn út kvóti Rússlandsmegin í Barentshafinu en í fyrra var hann 3.112 tonn. Þrjú skip stunduðu þá veiðar þar. Kleifabergið var með mest, tæp 1.400 tonn af þorski, næst kom Blængur NK með litlu minna, 1.140 tonn, og loks Arnar HU með 592.

Aflinn úr Barentshafinu Noregsmegin er nokkru minni en síðustu ár vegna minni veiðiheimilda. Í fyrra varð hann 5.962 tonn og stunduðu sjö skip þá veiðarnar. Síðustu þrjú ár þar á undan var aflinn um 6.800 tonn hver ár.

 

Deila: