Hlé á kolmunnaveiðum

Deila:

Fjögur skip lönduðu kolmunna í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði um og fyrir sl. helgi. Bjarni Ólafsson AK kom til Seyðisfjarðar á fimmtudagskvöld með rúmlega 1.600 tonn og í kjölfar hans kom Beitir NK aðfaranótt laugardagsins með rúmlega 2.000 tonn. Hákon EA kom til Neskaupstaðar aðfaranótt föstudagsins og landaði rúmlega 900 tonnum í verksmiðjuna ásamt því að landa um 230 tonnum af frystum afla. Á laugardag var síðan landað rúmlega 1.900 tonnum úr Berki NK í Neskaupstað.

Að loknum þessum löndunum verður gert hlé á kolmunnaveiðum að sinni enda heldur fiskurinn sig ekki lengur í alþjóðasjónum vestur af Írlandi. Áformað er að skipin haldi á ný til veiða eftir tíu daga eða svo þegar gera má ráð fyrir að kolmunninn hafi gengið inn í færeyska lögsögu.

Frá því að fyrsti kolmunnafarmurinn á árinu barst til Síldarvinnslunnar í janúar sl. hefur fyrirtækið tekið á móti 39.674 tonnum til vinnslu. Til Neskaupstaðar hafa borist 26.544 tonn og til Seyðisfjarðar 13.130 tonn.

Ljósmynd Smári Geirsson.

Deila: