Tæknin leysir erfiðu störfin af hólmi

Deila:

Tæknivæðing í fiskvinnslu á Íslandi er megin þemað í nýútkomnum Ægi. Sagt er frá nýju fiskiðjuveri G.Run á Grundarfirði og tæknivæddri fiskvinnslu Vísis í Grindavík. Jóhann Ólafur Halldórsson, riststjóri Ægis segir meðal annars svo í ritstjórnargrein blaðsins:

„Tækniþróun í landvinnslunni er mikil og hún er drifkraftur í þeirri þróun að dregið hefur úr sjófrystingu og vinnslan verið að færast í land. Hér er fjallað sérstaklega um tvö hús þar sem miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu, annars vegar hjá Vísi hf. í Grindavík og hins hjá G.Run í Grundarfirði. Í blaðinu er einnig viðtal við Kristján Hallvarðsson, sviðsstjóra hjá Völku en það fyrirtæki hefur þróað og framleitt tæknibúnað fyrir landvinnslu ÚA á Akureyri og er að takast á við stærsta verkefni fyrirtækisins hingað til á þessu sviði hér á landi sem verður ný vinnsla Samherja hf. á Dalvík sem áformað er að verði komin í gagnið að ári.

Það atriði sem forsvarsmenn þessara vinnsla sem hafa verið að tæknivæðast nefna fyrst er starfsumhverfið. Tæknin er að leysa af hólmi erfiðustu störfin. Á því eru tvær hliðar, bæði minna líkamlegt álag fyrir starfsmenn og líka hitt að líklegt er að það verði æ erfiðara að fá fólk til þessara starfa. Umræða um að tæknin leysi erfiðari störf af hólmi í fiskvinnslu hefur oftast snúist um að störf hverfi, starfsfólki muni þar með fækka en í ljósi reynslunnar er nær að tala um að störf breytist, færist til. Líkt og Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri G.Run bendir á þá er starfsmannahópurinn sá sami eftir breytingar hjá fyrirtækinu en enginn í nákvæmlega sama starfi og hann var áður.

Rauður þráður í þessum tæknibreytingum öllum eru afurðagæðin og samfella í meðhöndlun allt frá veiðum til endanlegra afurða. Gæðin felast líka í stöðugleika framleiðsluvaranna, t.d. í bitaskurðinum þar sem hægt er að mæta æ fleiri óskum kaupenda um bitastærðir. Í reynd eru þessar tæknivæddu fiskvinnslur þannig búnar að þær ráða við sérvinnslu fyrir hvern og einn. Fiskvinnsla gengur út á að mæta óskum og þörfum kaupenda erlendis. Svo einfalt er það. En aðalatriðið er að gæðin séu alltaf í fyrsta sæti og stöðug.

Deila: