Tæknin tvöfaldar afköstin

Deila:

Vísir hf. Í Grindavík er eitt þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem hefur tekið tæknina í sína þjónustu í samvinnu við Marel og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Skurðarvélar af gerðinni Flexicut frá Marel voru fyrsta skrefið í uppbyggingu tæknivæddrar nútíma fiskvinnslu, sérstök gæðaskoðunarlína, Innova upplýsinga- og skráningakerfi og loks pökkunarróbóti frá Marel hafa leitt til þess að afköst hafa tvöfaldast og nú tekur það vinnsluna ekki nema tvo daga að framleiða fiskmáltíð fyrir hvert mannsbarn á Íslandi.

Aflinn stærðarflokkaður um borð í Sighvati

Kvótinn leit við hjá Ómari Enokssyni yfirmanni tækniþróunar hjá Vísi og fór yfir gang mála hjá þeim. Við byrjuðum á veiðunum. Vísir gerir út fimm stóra línubáta og tvær trillur. Sú nýjung er í einum af línubátunum Sighvati GK, að aflinn er stærðarflokkaður um borð. Fiskurinn kemur því flokkaður í land. „Við getum tengt okkur um borð og séð hvað hann er að fiska, við sjáum þyngdardreifinguna á fiskinum, lengd og margt fleira. Fyrir vikið getum við látið söludeildina okkar fá þessar upplýsingar til að vinna úr. Sem dæmi um gang mála má nefna að Sighvatur fer á sjó í dag. Hann byrjar að draga á morgun. Hann kemur í land eftir fimm til sex daga. Eftir tvo daga getur söludeildin fengið upplýsingar um samsetningu aflans, og byrjað að selja afurðirnar, því það er vitað hvað er að koma í land.

Hinir bátarnir koma með óflokkað í land og vitum ekki samsetninguna. Söludeildin hjá okkur hefur stundum verið búin að semja um sölu á ákveðnum afurðum, sem svo þarf að breyta, því við vitum ekki hver stærðarflokkunin er, hún reynist oft öðru vísi en við héldum,“ segir Ómar.

Ómar Enoksson yfirmaður tækniþróunar hjá Vísi er ánægður með ávinninginn af tæknivæðingunni en telur að enn sé hægt að gera betur.

Hvert flak fær „heimilisfang“

Þegar fiskurinn er kominn inn í hús er hann flokkaður, og tekinn frá sá fiskur sem á að fara í salt, hinn er hausaður og flakaður. „Við stærðarflokkum inn á fjórar vélar til að hámarka nýtingu . Tökum svo flökin inn á nýja gæðaskoðunarlínu. Fólkið á línunni útlitssnyrtir þar flakið, fjarlægir ugga og laus bein nema beinagarðinn. Hvert flak er svo vigtað á stæðinu hjá hverjum og einum og gefið „heimilisfang“. Eftir það sleppir línan flakinu á færiband sem keyrir þau inn í skurðarvélina, sem vigtar flakið og lengdarmælir og sendir þær upplýsingar aftur á gæðalínuna, sem svo raðar flökunum fyrir skurðarvélina. Ef hún finnur bein sendir hún þær upplýsingar inn á gæðalínuna til viðkomandi starfsmanns. Þar fær hann mynd á skjáinn sem sýnir honum hvar beinið er og fjarlægir það.

Síðan skerum við þessi flök eftir fyrirframákveðinni forskrift eftir því hvernig á að nýta flakið. Bitarnir eru síðan keyrðir upp á samvalsflokkara, þar sem pakkað er í ferskt eða inn á frost,“ segir Ómar.

Mikið flæði upplýsinga

Manneskjan á gæðalínunni sér hjá sér hvað hún er að taka mörg kíló á tímann, sér meðaltalið á línunni í kílóum, sér hvað mörg flök fara frá henni á mínútu og sér meðaltal á flökum á línunni. Hún sér hvar öll bein hafa verið í hennar flökum og meðaltal beina frá línunni. Þetta sést svo allt hjá gæðastjóranum. Hann getur svo prentað út upplýsingablað fyrir hverja stöð á línunni, þar sem þessar upplýsingar allar er að finna. Ef um frávik er að ræða, til dæmis í fjölda beina, fer hann niður og talar við viðkomandi starfsmann til að gera betur. Ef skurðarvélin finnur bein í bitunum, hendir hún þeim frá. Það gerir hún líka við bita með losi í.

„Allar þær upplýsingar sem þarna verða til fara inn á Innova tölvukerfið okkar og við getum svo unnið úr þeim til að bæta vinnsluna, nýtinguna og hraðann enn frekar. Við erum nú að vinna í því að flokka flökin í vinstri og hægri til að geta sent upplýsingarnar til vélstjóranna, þeir sjá þá til dæmis að það er alltaf vinstra flakið sem er verra. Þá geta þeir lagað flökunina en mest af þessum beinagöllum eru flökunargallar.“

Séð yfir svæði hausunar og flökunar. Allt að 80 tonn fara í gegn á einum degi.

Gríðarleg framför

Árangurinn er fljótur að skila sér: „Þegar byrjað var að setja vinnsluna í gang var draumurinn að ná að vinna úr 50 tonnum á dag. Við vorum í byrjun að vinna 25 til 26 tonn á löngum degi, frá sjö til hálf fimm. Í dag erum við að taka um 60 til 70 tonn í gegn á sama tíma, en erum að fara yfir 80 tonn suma dagana, sem er miklu meira en við áttum von á. Góð snyrtikona var í fyrstu að vinna einhver 90 kíló á tímann frá sér. Nú erum við að sjá yfir 300 kíló koma frá þeim þannig að þetta er gríðarleg framför. Í þessu tilfelli er rétt að benda á að nú er hún bara að útlínusnyrta flakið, en áður þurfti hún að skera beinagarðinn úr. Tæknin er tekin við því núna í skurðarvélinni. Með því að láta vélina um þetta fáum við betri nýtingu og nákvæmari bitastærð og getum framleitt nánast það sem við viljum. Við erum svo að vinna í því að láta skurðarvélina finna blóð, himnu og orma og þegar það er komið, er gæðaeftirlitið orðið nánast alveg rafrænt.

Róbóti pakkar ferska fiskinum

Svo erum við að taka inn nýjung nú, sem er róbóti frá Marel sem pakkar ferskum fiskbitum í frauðkassa, sem er eiginlega fjórða tæknibyltingin. Við erum búnir að vera að keyra hann í viku og hann er að skila okkur miklu betri árangri en við þorðum að vona í byrjun. Við komum honum fyrir við pökkunarlínuna, stungum í samband og hann er búinn að vera að vinna síðan. Við erum búnir að segja honum hvað kassinn á að vera þungur, hver meðalþyngdin á að vera og hvað við ætlun að setja mörg stykki í kassann. Hann tekur svo bara til á fullu að raða í kassann með miklu meiri nákvæmni í yfirvigt og raðar mjög vel í kassana. Þegar við sjáum svona góðan árangur með þessum róbóta endum við líklega í þremur eða fjórum áður en við vitum.“

Þessi róbóti er nýbyrjaður að vinna fyrir Vísi. Ávinningurinn er ótvíræður.

Erum kannski bara að byrja!

Tækninni fleygir fram. En hve langt er hægt að fara í þeim málum? „Við héldum að þegar við vorum komnir með flexicut skurðarvélarnar að lengra yrði ekki komist. Við byrjuðum á því verkefni með Marel og þegar við sáum árangurinn þá var þetta hugsunin. En svo sáum við að hægt væri að ná meiri árangri með því að setja upp gæðaskoðunarlínu fyrir framan skurðarvélarnar. Hún var svo komin inn í vinnslulínuna hjá okkur fyrir einu og hálfu ári og gengur mjög vel þar. Svo kom pökkunarróbótinn og enn jókst árangurinn og nú held ég að við séum rétt að byrja. Framfarirnar í fiskvinnslu á síðustu fimm til sex árum er hreinlega ótrúlegar. Við erum til dæmis með róbótanum að taka út einhæf og leiðinleg störf, á móti fjölgum við í gæðaeftirliti og með þessu skapar svo fiskvinnslan fjölmörg störf í tæknigeiranum sem framleiðir vinnslubúnaðinn,“ segir Ómar.

180.000 máltíðir á dag

Vísir að afgreiða 30 til 40 pantanir frá sjö á morgnana og fram að hádegi. Fisk sem er að fara utan með flugi frá Keflavíkurflugvelli. Venjulega koma pantanir daginn áður en fiskurinn fer utan, en oft kemur fyrir að pantanir berast að morgni eða þeim er breytt og þær afgreiddar fyrir hádegið sama dag.

Til að setja afköstin í auðskiljanlegt samhengi reiknar Ómar út fjölda máltíða, sem fást með því að vinna úr um 80 tonnum á einum degi. Afurðirnar eru um 40 tonn og hæfileg máltíð af hreinum fiski er um 200 grömm. Útkoman er ansi merkileg. Á svona degi eru framleiddar um 180.000 máltíðir. Það tekur því Vísi um tvo daga að framleiða fiskmáltíð fyrir hvert mannsbarn á Íslandi og líklega ferðamennina líka.

Bökkunum útrýmt

„Með allri þessari tækni, flexicut, gæðaskoðunarlínu og betri stýringu flæðis erum við búnir að losa okkur við 80 til 90% af öllum bökkum úr húsinu vegna þess að það er hvergi uppsöfnun í kerfinu. Það er að segja þegar ákveðið mörg flök eru komin inn á flexicutinn, hægir hann sjálfur á gæðaskoðunarlínunni og sú lína hægir svo sjálfkrafa á flökunarvélunum. Ef gæðaskoðunarlínuna vantar svo meira, eykur hún hraðann á flökunarvélunum rólega á ný. Þess vegna er aldrei uppsöfnun á gæðalínunni, því hún hægir á flökuninni og það er aldrei uppsöfnun á skurðarvélina, því þegar hún er orðin full hægir hún á gæðalínunni. Þannig er flæðið jafnað yfir allan daginn og í raun aukum við afköstin með því að hægja á húsinu.

Áður fyrr, þegar línan var orðin yfirfull, vorum við að setja flökin í bakka og ef skurðarvélin hafði ekki undan settum við flök í bakka. Bakkarnir söfnuðust svo upp og svo var kannski farið í það eftir tvo tíma að tæma þá inn á skurðarvélarnar, en þá var búið að tapa vöka og gæðin orðin slakari. Nú er markmiðið hjá okkur að vinna 50 flök á hvorri skurðarvélinni og því þjónar ekki neinum tilgangi að vera að snyrta 70 til 80 flök. Það leiðir bara til uppsöfnunar. Áður þurfti kannski að stoppa flökunina korteri fyrir kaffi og 20 mínútur fyrir mat til að vinna úr bökkunum. Nú er bara keyrt þar til klukkan hringir,“ segir Ómar ennfremur.

 

Deila: