Minni hagnaður, meiri framlegð

Deila:

Hagnaður VSV-samstæðunnar nam 6,7 milljónum evra á árinu 2018, jafnvirði liðlega 900 milljóna króna, og minnkaði um 23% frá fyrra ári þegar hann var 8,7 milljónir evra. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum síðastliðinn fimmtudag.

  • Framlegð VSV-samstæðunnar (EBITDA)  jókst um 23,5% og nam 19,3 milljónum evra en var 15,6 milljónir evra árið 2017.
  • Rekstrartekjur námu 83,5 milljónum evra, jafnvirði 11,5 milljarða króna.
  • Eigið fé nam um 63 milljónum evra, jafnvirði um 8,6 milljarða króna.
  • Eiginfjárhlutfall var 30% í lok árs 2018 en var 32% í lok árs 2017.
  • Heildarskuldir og skuldbindingar jukust um 9% á árinu.
  • Veiðigjöld í ríkissjóð námu 2,9 milljónum evra eða um 400 milljónum króna og jukust um 47% frá fyrra ári.
  • Meðalfjöldi ársverka samstæðunnar á árinu var 313.

Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar voru miklar á árinu en nú dregur verulega úr þeim og sumum verkefnum er lokið. Félagið hefur á undanförnum árum reist og tekið í gagnið uppsjávarfrystihús, frystigeymslu, mjölhús og hráefnisgeyma á athafnasvæði sínu. Þá bættist ísfisktogarinn Breki VE í flota félagsins á árinu 2018.

Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri á Sauðárkróki, var kjörinn í aðalstjórn Vinnslustöðvarinnar. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir: Einar Þór Sverrisson, Guðmunda Á. Bjarnadóttir, Guðmundur Örn Gunnarsson og Rut Haraldsdóttir.

Í varastjórn voru kjörin Eyjólfur Guðjónsson, Herdís Á. Sæmundardóttir og Sigurhanna Friðþórsdóttir. Eyjólfur sat í fyrri varastjórn félagsins.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigurhanna, Guðmunda, Eyjólfur, Guðmundur Örn, Einar Þór, Rut, Herdís og Sigurjón R.

Hluthafar í Vinnslustöðinni voru 236 um áramót. FISK Seafood á Sauðárkróki eignaðist tæplega 33% hlut í félaginu á árinu 2018 og er næststærsti hluthafi þess. Seil ehf. félag í eigu heimamanna í Eyjum, er stærsti hluthafinn með um 41% hlut.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 4 milljónir evra í arð, sem jafngildir um 550 milljónum króna. Arður til hluthafa var tvöfalt hærri undanfarin fimm ár eða 8 milljónir evra.

Í skýrslu stjórnar VSV, sem Guðmundur Örn Gunnarsson formaður flutti á aðalfundinum, kom meðal annars fram að Asía væri orðin helsta markaðssvæði félagsins. Hann kallaði eftir stórauknum grunnrannsóknum á auðlindum hafsins, fjallaði um alvarleg áhrif loðnu- og humarbrests á fyrirtækið og samfélagið í Eyjum. Stjórnarformaðurinn taldi „nánast fyrirsjáanlegt“ að uppsjávarfloti landsmanna yrði nú rekinn með tapi fyrir vexti og afskriftir og spurði: „Hvað þá?  Á samt að leggja 33% veiðigjald á hagnað sem ekki er til?“

 

Deila: