Það er bara búin að vera veisla

Deila:

„Við erum búnir að vera að taka 30 til 40 tonn á dag. Þetta hefur verið algjört ævintýri hjá okkur hérna á Breiðafirðinum í mars. Höfum verið að fá allt upp í 10 tonn í trossu,“ segir Kristgeir Arnar Ólafsson, skipstjóri á Kap II frá Vestmannaeyjum. Hann var þá á veiðum á Breiðafirði.

Kristgeir segir að veiðin sé afburða góð, en veðrið við Vestmannaeyjar hafi ekki verið gott og því hafi hann flúið inn á Breiðafjörðinn „og það er bara búin að vera veisla.“

Þeir hafa verið að leggja sex til átta trossur, „en það hafa ekki verið tíu tonn í þær allar, en þetta hefur verið mjög gott. Boltafiskur enda erum við eingöngu að nota níu tommu riðil hérna. Það er loðna á slóðinn en hún er lögst og svo er dálítið af síld líka svo þorskurinn hefur nóg að éta. Hann liggur bara afvelta.“

Kristgeir segist ekki geta annað en verið ánægður með ganginn í veiðunum. „Við byrjuðum reyndar ekki fyrr en í febrúar. Skipið var í breytingum, það var verið að stækka lestina og aðgerðaraðstöðuna og vinnuaðstöðuna hjá mér í brúnni. Það tók aðeins lengri tíma en menn bjuggust við og þess vegna fór janúarmánuður í þetta.“

Hann segir að þessi mikla veiði sé nokkuð árstíðabundin. Mars sé besti mánuðinn á netunum. Netabátarnir séu búnir að rótfiska allt frá áramótum. Það séu allir að fiska nema helst línubátarnir. Þorskurinn liggi í loðnunni og taki því beituna verr.

Landað úr Sævík. Sigurður Óli Sigurðsson faðir Júlíusar skipstjóra hjálpar til við löndunina. Í baksýn eru Gjögurs-bátarnir Vörður og Áskell sem báðir eru að mokfiska að vanda. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Bátar sem róa frá Grindavík hafa einnig verið að gera það gott. Línubáturinn Sævik hefur mokfiskað undir stjórn Júlíusar Magnúsar Sigurðssonar. Á laugardaginn var hann að landa fullfermi, 14 tonnum af fallegum þorski og átti þá eftir að draga mikinn hluta línunnar. Því var haldið út eftir löndun og afgangurinn sóttur.

Júlíus Magnús Sigurðsson, skipstjóri á Sævík að landa.

Trollbáturinn Vörður kom inn á laugardagsmorguninn með fullfermi, sem er svo sem engin nýlunda. En þeir voru býsna fljótir að fylla bátinn. Það gerðu þeir í tveimur holum, fyrst um 20 tonn og síðan nærri annað eins. Trollinu var bara rétt dýft í sjóinn, togað í nokkrar mínútur og síðan híft.

 

 

Deila: