Stál og hnífur í Barcelona
Þessa dagana fer kynningarherferðin „Ruta del Bacalao“ fram í Barcelona, en herferðin miðar að því að minna íbúa Spánar á dásemdir saltfisksins. Í kringum páskana er mjög vinsælt meðal Spánverja að snæða saltfisk, enda er hann í miklum metum þar og þykir herramannsmatur. Undanfarin ár hefur því verið lögð áhersla á öfluga kynningu á saltfiski á þessum árstíma samkvæmt frétt frá Íslandsstofu.
Markaðssamstarf í kynningu á íslenskum þorski í Suður Evrópu undir merkjum Bacalao de Islandia hefur staðið yfir frá árinu 2013. Markaðsverkefnið Bacalao de Islandia tekur nú í fjórða sinn þátt í kynningarherferð Ruta del Bacalao til að koma íslenska saltfisknum á framfæri á Spáni.
Í kynningunni taka þátt 28 veitingastaðir DAMM (mest seldi bjór Katalóníu), og útvatnarasamtök í Barcelona. Samtökin eiga sér langa sögu, en í þeim koma saman svokallaðir bacallaners sem eru sérhæfðir í útvötnun, skurði og sölu á saltfiski, og selja vörur sínar á matarmörkuðum í Barcelona.
Þann 19. mars var boðið til blaðamannafundur í Barcelona til kynningar á samstarfinu og viðburðum framundan. Halldór Már Stefánsson, tónlistar- og sjónvarpsmaður í Barcelona var valinn andlit herferðarinnar að þessu sinni, en Halldór Már hefur undanfarin ár getið sér gott orð á þessu svæði og stýrir meðal annars vinsælum þætti þar hann tekur viðtöl við brottflutta Katalóna. Hann var útnefndur heiðursmeðlimur í útvatnarasamtökunum og hlaut verðlaunagrip í boði Bacalao de Islandia. Fulltrúi Bacalao de Islandia, Kristinn Björnsson, flutti stutta tölu um leyndarmálið á bakvið gæði íslenska þorsksins, og Ricard Perelló fulltrúi útvatnara, lofaði gæði saltfisksins frá Íslandi. Þá sagði markaðsstjóri DAMM, Carlos Sitjar, nokkur orð um mikilvægi samstarfsins og það hvernig eiginleikar bjórsins draga fram það besta í saltfiskinum. Einnig var boðið upp á sýnikennslu þar sem stjörnukokkurinn Sergi de Meiá galdraði fram nokkra rétti úr íslenskum þorski. Í lokin tók svo Halldór Már lagið, en þetta er líklega í fyrsta sinn sem Stál og hnífur fær að hljóma við viðlíka tækifæri.
Veitingastaðirnir 28 sem taka þátt munu bjóða upp á íslenskan þorsk paraðan með hágæða DAMM bjór á meðan kynningarherferðin stendur yfir. Samhliða þessu verða einnig smakkbásar á 10 matarmörkuðum í Barcelona, en markaðirnir eru mikilvægir í sölu á söltuðum þorski og eru þekktir meðal almennings fyrir mikil gæði.
Nánari upplýsingar um herferðina má finna í meðfylgjandi bæklingi og á vefsíðu Ruta del Bacalao