Afdrifaríkt fótbrot

Deila:

Síldarvinnslan festi kaup á stóru uppsjávarskipi árið 1973. Skipið fékk nafnið Börkur og var gjarnan nefnt Stóri-Börkur á sínum tíma. Gert var ráð fyrir að Börkur myndi henta vel til loðnuveiða og eins voru bundnar vonir við að skipið gæti veitt kolmunna. Kaupin á Berki vöktu nokkra athygli og þótti sumum að þau einkenndust af mikilli bjartsýni. Farið er yfir sögu skipsins á heimasíðu Síldarvinnslunnar á meðan það var í eigu félagsins:

„Erfiðlega gekk að finna næg verkefni fyrir Börk fyrstu árin eftir að skipið var keypt. Loðnuvertíðin var stutt og kolmunnaveiðarnar gengu ekki sem skyldi. Reynt var að finna ný verkefni fyrir skipið og haustið 1975 var það sent til loðnuveiða í Barentshafi ásamt fleiri íslenskum skipum og síðar þetta sama haust lagði það stund á makrílveiðar undan ströndum norðvestur Afríku.

Að því koma að stjórn Síldarvinnslunnar taldi óhjákvæmilegt að setja Börk á söluskrá vegna verkefnaskorts. Ekki var þess langt að bíða að fyrirspurnir bærust um kaup á skipinu og komu þær frá norskum útgerðarfyrirtækjum. Í maímánuði 1976 kom norskur útgerðarmaður til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að skoða Börk með kaup í huga. Leiddi sú skoðun til þess að undirritaður var bráðabirgðasamningur um kaupin en í samningnum voru nokkrir fyrirvarar. Samkvæmt samningnum var gert ráð fyrir að Börkur yrði afhentur norska kaupandanum hinn 15. júlí og yrði skipið afhent með veiðarfærum. Í stað Barkar ráðgerði Síldarvinnslan að festa kaup á togara.

Ekki voru allir sáttir við þá ákvörðun að selja Börk og bentu á að nýlokið væri við byggingu nýrrar loðnuverksmiðju í Neskaupstað í stað þeirrar sem eyðilagðist í snjóflóði 1974 og því væri nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að eiga öflugt loðnuskip.

Börkur NK lætur úr höfn um mánaðamótin maí/júní 1976 áleiðis í Norðursjó. Norðfirðingar gerðu ekki ráð fyrir að sjá skipið á ný. Ljósm. Björn Björnsson yngri

Þegar þarna var komið sögu hafði Síldarvinnslunni verið úthlutað 340 tonna síldarkvóta í Norðursjó fyrir Börk og var ákveðið að skipið héldi þangað til síldveiða um mánaðamótin maí-júní. Áður en Börkur lagði af stað var gengið frá öllu um borð með það í huga að skipið yrði síðan afhent nýjum eiganda í Danmörku þegar síldveiðinni lyki. Börkur hafði verið tekinn vel í gegn og var nýmálaður og fínn. Síldarnótin var í nótakassanum og loðnunótin í lestinni enda áttu veiðarfærin að fylgja skipinu til nýs eiganda. Þegar Börkur lét úr höfn tók hann hring á firðinum og flautaði með skipsflautunni í kveðjuskyni. Norðfirðingar áttu ekki von á því að sjá Stóra-Börk á ný.

Á meðan Börkur var við síldveiðarnar í Norðursjó fóru Síldarvinnslumenn til Noregs og skoðuðu þar 400 tonna togara sem mögulegt var að kaupa þegar salan á Berki yrði að veruleika. Væntanlegur kaupandi Barkar ætlaði að koma til Danmerkur og skoða skipið enn frekar áður en af kaupunum yrði. Bið varð á því að kaupandinn skilaði sér og loks bárust þær fréttir að hann hefði fótbrotnað og væri ekki ferðafær eins og á stæði.

Einmitt á þeim tíma sem beðið var eftir norska kaupandanum í Norðursjó hófust sumarloðnuveiðar í fyrsta sinn við Ísland. Börkur var samstundis kallaður heim úr Norðursjónum og sendur til loðnuveiða fyrir norðan land. Tilkoma sumarloðnuveiðanna breytti miklu hvað söluáformin varðaði og brátt tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að taka Stóra-Börk af söluskrá.

Aflaskipið Börkur NK með fullfermi af loðnu, en alls fiskaði skipið yfir 1,5 milljón tonna á meðan það var í eigu Síldarvinnslunnar

Fótbrot norska útgerðarmannsins skipti miklu máli í þessari sögu. Ekki er ólíklegt að ef norski útgerðarmaðurinn hefði komið til Danmerkur á tilsettum tíma hefði skipið verið selt. Einn stjórnarmanna Síldarvinnslunnar hafði orð á því síðar að þarna hefðu örlögin gripið inn í og fótbrotið reynst gæfuríkt fyrir Síldarvinnsluna. Hér skal það rifjað upp að Stóri-Börkur var í eigu Síldarvinnslunnar allt til ársins 2016 og bar reyndar nafnið Birtingur á árunum 2012-2016. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum sem er með því almesta sem íslenskt skip hefur borið að landi.

 

 

Deila: