Hafna makrílfrumvarpinu
Sveitarfélögin á Ströndum eru ekki sátt við makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra eins og það liggur fyrir. Telja sveitarstjórnarmenn að verði það að lögum eins og það er, verði það mikið högg fyrir smábátsútgerðir sem hafa stundað makrílveiðar.
Þetta kemur fram í umsögn sveitarfélaganna Strandabyggðar og Kaldrananeshrepp um frumvarpið, en umsögnin er svohljóðandi:
„Sveitarfélögin Strandabyggð og Kaldrananeshreppur mótmæla harðlega þeim stutta umsagnartíma sem þetta frumvarp fær og óska hér með að sá tími verði lengdur, svo að tími gefist til að afla nauðsynlegra gagna.
Sú ákvörðun að miða við 11 ára aflareynslu hefur þau áhrif að smábátaútgerðir taka á sig nærri helmings skerðingu eða úr tæplega 4% heildarafla í 2%. Enginn vafi er á því að um mikið högg yrði að ræða fyrir útgerðir í þeim byggðarlögum sem að mestu byggja á smábátaútgerð. Það á bæði við aflamissi með tilheyrandi tapi útgerða og hafna en einnig um alla vinnslu á svæðinu. Því er í raun um tvöfalt högg að ræða.
Smábátaútgerðir hafa lagt í miklar fjárfestingar á búnaði til krókaveiða á makríl, sem er mun vistvænni veiðiskapur, í samræmi við stefnu stjórnvalda og umhverfisvottun Vestfjarða. Makríll veiddur af smábátum sem gerðir eru út við Steingrímsfjörð hefur allur verið unnin í heimabyggð. Því myndi breytingin hafa mikil áhrif á afleidd störf í byggðarlögum sem eiga á brattan að sækja. Við teljum þetta frumvarp vera enn eina aðgerðina til að bregða fæti fyrir smærri sveitarfélög á landsbyggðinni og höfnum því þess vegna alfarið.“