,,Þetta var fínn túr”

Deila:

,,Þetta var fínn túr, góð veiði og veðrið var með besta móti miðað við árstíma. Við vorum um þrjá og hálfan sólarhring á veiðum og aflinn var um 180 til 190 tonn, miðað við slægt.“

Þetta sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Engey RE, er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda, en skipið kom mun fyrr til hafnar en áætlað var vegna hinna góðu aflabragða.

,,Við hófum veiðar á Fjöllunum. Fengum þar gullkarfa og svo hittum við á ufsa og náðum  að veiða það sem vinnslan hafði skammtað okkur,“ segir Friðleifur sem næst segist hafa reynt fyrir sér á Eldeyjargrunni.

,,Aflinn var aðallega þorskur og svo fengum við gullkarfa með. Við enduðum svo veiðar á Selvogsbankanum en þar var aflinn aðallega þorskur og ýsa.“

Að sögn Friðleifs virðist vera töluvert magn af fiski á suðvestursvæðinu.

,,Það er hins vegar mikil hreyfing á þessum fiski og því ekki á vísan að róa. Það á ekki síst við um ufsann. Maður gengur aldrei að honum vísum. Stundum verður maður sama og ekkert var við ufsa á slóðinni en aðra daga hittir maður á ufsann og þá getur stundum verið mokveiði,“ segir Friðleifur Einarsson.

Deila: