Nýr Páll Jónsson kominn á flot í Póllandi

Deila:

Páll Jónsson, nýtt línuskip Vísis í Grindavík er kominn á flot í pólsku skipasmíðastöðinni Alkor. Skipið verður afhent í haust og mun leysa af hólmi eldra skip Vísis með sama nafni. Nýja skipið er 45 metrar að lengd og 10,5 á breidd.

„Þetta hefur bara bara gengið mjög vel hjá Pólverjunum. Skipið er mjög vel smíðað, mjög góður frágangur á öllu og allt er á áætlun. Þessi skipasmíðastöð hefur unnið fyrir okkur oft áður og staðið sig mjög vel og öll samskipti við hana hafa verið mjög góð.  Engar uppákomur í kringum þetta. Við erum mjög ánægðir með hvernig þetta hefur gengið,“ segir Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri Vísis.

Þetta er skip sem á að taka 420 kör í lest. Íbúðir um borð eru 14, allt eins manns klefar. Þilförin eru þrjú. Báturinn verður útbúinn með stórri krapavél og forkæli. Aðalvél og ljósavél eru frá Caterpillar. Skipið er komið á flot og allur vélbúnaður kominn um borð. Búið er að einangra allt skipið og verið að klæða það innan. Búið er að draga rafmagn í hann að mestu leyti og skrúfa og stýrisvél komin á sinn stað.

„Við áætlum að skipið verði tilbúið til afhendingar fljótlega í haust. Þegar heim er komið á eftir að setja aðgerðar- og kælibúnað í hann. Línukerfið verður sett í hann í Noregi. Það koma Norðmenn frá Mustad og setja kerfið í hann, en þetta verður fyrsta línuskipið hérlendis með sjálfvirkt rekkakerfi. Það er svo verið að vinna á fullu í kringum skipið hér heima. Atlas er umboðsaðili fyrir Alkor, Raftíðni sér um að smíða allan rafmagnsbúnað í skipið, Skiparadíó í Grindavík, sér um öll siglingatæki, síma og tölvur og fleira. Það er búnaður sem Alkor er að kaupa beint af þeim.  Navis hefur séð um alla hönnun á skipinu,“ segir Kjartan.

Vísir hefur verið að endurnýja línskipaflota sinn að undanförnu. Sighvatur er nýlega kominn frá Póllandi, nánast sem nýtt skip og Fjölnir var nýlega skveraður í Póllandi. Gamli Páll Jónsson, sem áður var Rauðsey AK, mun víka fyrir nýja skipinu. Að auki eru svo línuskipin Kristín GK og Jóhanna Gísladóttir GK gerð út af Vísi.
Myndir Kjartan Viðarsson.

Pálll Jónsson GK víkur senn fyrir nýjum og stærri Páli. Sá gamli hét áður Rauðsey.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: