Stimpilgjald vegna skipakaupa þarf að endurskoða

Deila:

„Það skýtur á margan hátt skökku við að á sama tíma og stjórnvöld hvetja til þess að íslenskur sjávarútvegur ráðist í fjárfestingar á umhverfisvænni skipum sé lagt sérstakt gjald á þessar sömu fjárfestingar sem ekki þekkist í rekstrarumhverfi erlendra samkeppnisaðila. Hér er ég að vísa til þess stimpilgjalds sem greiða ber við eignatilfærslur fyrir skip yfir 5 brúttótonnum. Þessa gjaldtöku þarf að endurskoða enda myndi það fela í sér hvata fyrir íslenskan sjávarútveg til að hraða enn frekar endurnýjun fiskiskipaflotans og þannig stuðla að loftslagsvænni sjávarútvegi. Það er öllum til hagsbóta.“

Svo sagði sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson, í ávarpi sínu á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Ávarp ráðherrans fer hér á eftir:

Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fyrir að vera boðið að koma og ávarpa þennan ársfund SFS, sem að þessu sinni er tileinkaður einni stærstu áskorun okkar tíma – heilbrigði hafsins. Það er vel að þeir sem veita íslenskum sjávarútvegi forystu láti sig þessi málefni varða.

Hafið hefur bundið Ísland við önnur lönd í tímans rás. Það var og er þjóðbraut fólks, flutninganet vöru og þjónustu og sjálfbær uppspretta verðmæta. Mikilvægi hafsins er því ótvírætt í menningu okkar og viðskiptum. Við höfum alla tíð reitt okkur á auðlindir hafsins og heilbrigði þess er því ein af undirstöðum lífkjara- og velmegunar okkar Íslendinga.

Í vikunni sótti ég leiðtogafund ríkja á Norðurslóðum, Arctic Forum – haldin í St. Pétursborg. Og þótt ég sé ekki jafn sleipur í rússnesku og okkar margtyngdi forseti, þá varð mér ljóst á fundinum hversu vísindamenn eru uggandi um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðir. Það er viðurkennt að Norður-Íshafið hefur hlýnað helmingi örar en meðaltal hlýnunar í heimshöfunum og hefur þekja rekíss minnkað óðum af þeim sökum. Horft er til þess að siglingaleiðir muni opnast sem þegar hefur getið af sér verulega uppbyggingu. Um samskipti Íslands og Rússlands áttum við raunar uppbyggilegan og góðan fund með Vladimir Putin Rússlandsforseta þar sem ég gerði meðal annars að umtalsefni samskipti landanna á sviði sjávarútvegsmála.

Hinar öru breytingar í umhverfinu á Norðurslóðum urðu með öðru til þess að í október var undirritaður nýr samningur um takmörkun fiskveiða í Norður-Íshafinu utan lögsagna ríkja. Samningurinn er núna til meðferðar á Alþingi sem þingsályktun. Hann er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að með honum er lagður grundvöllur að auknu vísindasamstarfi og mögulegu upphafi fiskveiða á svæði þar sem engar veiðar hafa nokkru sinni verið stundaðar. Það er með öðrum orðum ekki lengur unnt að útiloka að miðjan í Norður-Íshafinu geti orðið vettvangur fiskveiða í framtíðinni. Það var ánægjulegt fyrir mig sem sjávarútvegsráðherra að koma að þessum viðræðum, sem við tókum virkan þátt í, þar sem Ísland var viðurkennt sem eitt mikilvægasta fiskveiðiríki Norðurslóða.

Ágætu gestir.

Íslenskur sjávarútvegur hefur á undanförnum árum náð markverðum árangri í umhverfismálum. Ber þá helst að nefna þá staðreynd að verulegur árangur hefur náðst í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum sjávarútvegi á síðastliðnum áratugum.

Til að fylgja eftir þessum árangri er í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum að finna aðgerðir sem snúa sérstaklega að sjávarútvegi. Þær aðgerðir snúa meðal annars að því að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipum, rafvæða hafnir og fiskimjölsverksmiðjur.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um eflingu hafrannsókna og hafa þegar verið stigin markverð skref í þá veru. Þetta birtist meðal annars í auknum fjármunum til hafrannsókna í fjárlögum síðasta árs en þeir fjármunir nýttust m.a. til að efla loðnurannsóknir. Þá var það sérstaklega ánægjulegt þegar Alþingi samþykkti á 100 ára afmæli fullveldis okkar að hafin yrði smíði nýs hafrannsóknaskips. Á þessu ári verða settar 300 milljónir í smíði skipsins og alls 3,5 milljarðar til að ljúka smíði þess á næstu árum. Ég vil nýta þetta tækifæri og greina frá því að ég hef nú skipað byggingarnefnd vegna þessarar smíði en hana skipa Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, endurskoðandi, og Friðrik Jón Arngrímsson, lögfræðingur, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Ágætu gestir.

Það skýtur á margan hátt skökku við að á sama tíma og stjórnvöld hvetja til þess að íslenskur sjávarútvegur ráðist í fjárfestingar á umhverfisvænni skipum sé lagt sérstakt gjald á þessar sömu fjárfestingar sem ekki þekkist í rekstrarumhverfi erlendra samkeppnisaðila. Hér er ég að vísa til þess stimpilgjalds sem greiða ber við eignatilfærslur fyrir skip yfir 5 brúttótonnum. Þessa gjaldtöku þarf að endurskoða enda myndi það fela í sér hvata fyrir íslenskan sjávarútveg til að hraða enn frekar endurnýjun fiskiskipaflotans og þannig stuðla að loftslagsvænni sjávarútvegi. Það er öllum til hagsbóta.

Varðandi veiðigjaldið leyfi ég mér að rifja upp orð mín á þessum vettvangi fyrir ári síðan. Þar gerði ég grein fyrir væntanlegu frumvarpi um veiðigjald og að markmið þeirrar vinnu væri að tryggja að greiðsla veiðigjalds taki tillit til afkomu fyrirtækja eins og hún er á hverjum tíma og að gjaldið sé einfalt, stöðugt og fyrirsjáanlegt.

Ég tel að þessum markmiðum hafi verið náð. Þannig er óumdeilt að gjaldtakan er eftir þessar breytingar meira í takt við afkomu fyrirtækja. Þá voru margvíslegar breytingar gerðar til einföldunar – meðal annars var felld niður gjaldtaka á lítið veiddar tegundir. Veiðigjaldsnefnd var lögð niður og útreikningur og álagning gjaldsins færð til Ríkisskattstjóra. Hagnaður fiskvinnslu kemur ekki lengur útreiknings veiðigjalds. Tekið er tillit til fjárfestinga í skipum og tækjabúnaði í sjávarútvegi við útreikning á gjaldstofni gjaldsins. Fleira mætti nefna.

Hvað sem öllu þessu líður verður stóra þrætueplið í allri þessari umræðu þó alltaf það sama. Hversu stóran hluta á ríkið að taka til sín? Ég veiti því sjónarmiði – að það gjald sem var lögfest sé of hátt – fullan skilning. Á sama tíma tel ég þó augljóst að núverandi gjaldtaka sé á allan hátt betri en það sem áður var og efast um að nokkur myndi vilja snúa til baka.

Ágætu gestir.

Uppbygging fiskeldis hefur verið mikið í umræðunni síðastliðin misseri. Nú liggja fyrir Alþingi tvö frumvörp sem snerta greinina með beinum hætti, annars vegar um breytingar á ýmsum lögum um fiskeldi og hins vegar um gjaldtöku á greinina.

Ég hef í umræðu um fiskeldi vísað til þess að helsti lykilinn að velgengni í norsku fiskeldi er að þeirra mati talin vera samvinna fjögurra lykilþátta, það er stjórnvalda, fiskeldisfyrirtækja, náttúrunnar og vísinda.

Ef við heimfærum þetta yfir á stöðu mála hér á landi þá er augljóst að margt þarf að gera betur. Nú er unnið að því að styrkja þann hluta sem snýr að stjórnvöldum, meðal annars með því að setja á fót samráðsnefnd allra þessara aðila. En ég vil jafnframt skora á ykkar samtök að beita ykkur fyrir því að fiskeldisfyrirtækin tali sem næst einni röddu. Jafnframt þarf að nást meiri samstaða og sátt um hinn vísindalega þátt sem hvílir hjá Hafrannsóknastofnun. Þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum. Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað.

Þá verð ég að segja að mér finnst umræðan á stundum með þeim hætti að atvinnugreinin sé ekki að byggjast upp. Að það sé hreinlega allt stopp eða að greinin sé á allra fyrstu árum síns æviskeiðs. Í því samhengi minni ég á að í fyrra voru framleidd rúm 13 þúsund tonn af eldislaxi. Samkvæmt upplýsingum frá eldisfyrirtækjunum er ráðgert að framleiða 45 þúsund tonn árið 2021, eftir tvö ár. Þetta þýðir rúmlega þreföldun á framleiðslu á þremur árum. Þetta myndi þýða að útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2021 yrði svipað og samanlagt útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls var árið 2017. Þetta er stórmerkilegt ef þetta gengur eftir.

Íslenskt fiskeldi er komið til að vera og hefur alla burði til að verða enn sterkari og öflugri atvinnugrein. Ábyrgð stjórnvalda er að skapa greininni þannig lagaumhverfi að það verði vandað til verka í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Stuðla að því að hún sé sjálfbær, í sátt við umhverfið og ákvarðanir verði byggðar á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum. Á þessum grunni verða fiskeldi allir vegir færir.

Ágætu gestir.

Á annasömum tímum hættir eflaust fleirum en mér til að dragast niður í úrlausnarefni líðandi stundar. Vill þá oft farast fyrir að skyggnast um og horfa jafnt um öxl sem fram á veginn. Því vil ég nýta þetta tækifæri til að horfa aðeins fram á veginn og segja ykkur frá nokkrum verkefnum sem unnið er að.

Nú stendur yfir vinna við breytingar á stefnu og starfsemi Matís ohf. Markmið þeirrar vinnu er að skerpa á áherslum og hlutverki félagsins – sem á fyrst og síðast að vera að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs. Veigamikill hluti af því er að styrkja tengsl Matís við atvinnulífið og eru uppi áform um að efla starfsemi félagsins á landsbyggðinni þar sem stærsti hluti matvælaframleiðslunnar fer fram. Þetta er spennandi verkefni sem ráðgert er að ljúka á þessu ári.

Annað verkefni sem ég bind miklar vonir við fer af stað á næstu vikum og verður unnið af Sjávarklasanum. Markmið þess er að skyggnast inn í framtíðina – skoða þau tækifæri og áskoranir sem blasa við okkur. Fara yfir þörf á aukinni matvælavinnslu á heimsvísu, hvernig við getum mætt henni og aukið verðmæti sjávarfangs. Hugmyndin er sú að nýta niðurstöðu þessa verkefnis til að undirbyggja langtíma stefnumótun í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar.

Á nýafstaðinni fundarferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins um landið voru málin meðal annars rædd á þessum nótum – framtíð íslensks sjávarútvegs. Um hlutverk stjórnvalda mátti heyra að þau ættu helst að einbeita sér að einu – að vera ekki of mikið fyrir. Og ég held að það sé svolítið til í þessu – stjórnvöld verða að passa sig að vera ekki of mikið fyrir því frumkvæðið og krafturinn býr í fólkinu og fyrirtækjunum, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða.

Eitt af stærstu verkefnum stjórnvalda í þessu samhengi er stuðla að einföldu og skilvirku regluverki. Nú stendur yfir margvísleg vinna sem miðar einmitt að þessu. Má þar nefna heildarendurskoðun á öllum eftirlitsreglum sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en þetta verkefni er í fullum gangi að frumkvæði okkar ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Þá má nefna tillögur starfshóps um heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum en stærstu hluti tillagna hópsins snýst um að einfalda og skýra regluverk. Einn angi þessarar vinnu er að grisja reglugerðarskóginn og má nefna að núna er í samráðsgátt stjórnvalda að finna drög að reglugerðum sem fækka reglugerðum um alls 50.

Loks vísa ég í þessu samhengi til samráðshóps um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem ég bind miklar vonir við. Verkefni hópsins beinast meðal annars að því að taka til athugunar og gera tillögur að úrbótum á sviði verklags og aðferða Fiskistofu varðandi vigtun sjávarafla og brottkast. Hvort nýta megi í ríkari mæli tækni við eftirlit. Yfirfara viðurlagaheimildir og fleira.

Það er frumskylda stjórnvalda að tryggja sem best stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensk sjávarútvegs til lengri tíma og búa greininni samkeppnishæft starfsumhverfi. Tryggja að þau verði ekki undir í harðri alþjóðlegri samkeppni. Þar hefur gjaldtaka mikið vægi en ekki síður þarf að róa að því öllum árum að útflutningur á sjávarafurðum til Evrópusambandsins og annarra mikilvægra markaða verði sem greiðust og að fullu tollfrjáls. Sú vinna stendur yfir.

Ágætu gestir.

Síðastliðin ár hafa sprottið upp og vaxið hringinn í kringum landið þjónustu- og hátæknifyrirtæki sem eru í fararbroddi við að hámarka gæði aflans með nýjustu tækni. Á þessa þróun er bent í nýrri skýrslu stjórnvalda um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna og þar er bent á að tækifæri Íslands felast í frekari verðmætasköpun í þessa veru.

En þessi fyrirtæki eru ekki einungis að vaxa hringinn í kringum landið heldur út um allan heim. Meðal annars í Rússlandi þar sem nú stendur yfir það sem kallað hefur verið nútímavæðing sjávarútvegs Rússa. Í þeirri endurnýjun hefur íslenskt hugvit verið selt fyrir tugi milljarða og tækifærin til frekari vaxtar blasa við. Það má taka undir með fyrrgreindum skýrsluhöfundum að ástæða þess að sjávarútvegurinn stendur framarlega á þessu sviði eru meðal annars sterk sjávarútvegsfyrirtæki og vilji þeirra til að styðja við nýsköpun og hagnýtingu vísinda í sjávarútvegi.

Ágætu gestir.

Náttúran er okkur gjöful, þótt sjávarafli geti verið svikull, eins og loðnubrestur þessa árs leiddi í ljós með afdrifaríkum hætti. En það er til vitnis um styrk og traustan grunn íslensks sjávarútvegs að greinin býr yfir þeirri hæfni að geta aðlagast breyttum aðstæðum. Ég mun hér eftir sem hingað til leitast eftir uppbyggilegu samstarfi við þá sem starfa í íslenskum sjávarútvegi um það sameiginlega markmið okkar að treysta þann grunn enn frekar og geng ég bjartsýnn til þess verks.

Að svo mæltu óska ég ykkur heilla í ykkar störfum.

 

Deila: