Ekkert að finna í tölvupóstum
Ekkert hefur komið fram í yfirferð tölvupósta bankastjóra Seðlabankans sem styður við að Ríkisútvarpinu hafi verið veittar trúnaðarupplýsingar og að seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri hafi haft um það vitneskju og hvað þá heimilað.
Þetta kemur fram í svari Seðlabankans til forsætisráðherra þar sem meðal annars var spurt meinta upplýsingagjöf starfsmanna Seðlabanka Íslands til Ríkisútvarpsins. Svarið hefur nú verið birt á vef stjórnarráðsins samanber eftirfarandi rétt frá forsætisráðuneytinu.
Þann 12. nóvember sl. óskaði forsætisráðherra eftir greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja hf. í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 8. nóvember 2018 í máli nr. 463/2017.
Umbeðin greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands barst forsætisráðuneytinu 21. febrúar sl. og hefur hún áður verið gerð opinber.
Í framhaldi af móttöku greinargerðarinnar óskaði forsætisráðherra með bréfi, dags. 15. mars sl., eftir nánari upplýsingum, skýringum og gögnum um eftirtalda þrjá þætti málsins er lúta að:
- fyrirhuguðum úrbótum í stjórnsýslu Seðlabanka Íslands sem boðaðar eru í greinargerð bankaráðs,
- fyrirliggjandi afstöðu ríkissaksóknara frá árinu 2014 til gildis refsiheimilda sem ítarlega er fjallað um í áliti umboðsmanns Alþingis frá 22. janúar 2019
- og meintri upplýsingagjöf starfsmanna Seðlabanka Íslands til Ríkisútvarpsins um fyrirhugaða húsleit hjá Samherja hf. 27. mars 2012, sbr. bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 4. mars 2019.
Jafnframt var Seðlabanka Íslands gefinn kostur á því að tjá sig almennt um greinargerð bankaráðs að því marki sem bankinn teldi tilefni til. Sjá nánar meðfylgjandi bréf forsætisráðherra til Seðlabanka Íslands.
Svör Seðlabanka Íslands, sem bárust forsætisráðuneytinu 12. apríl sl., og varða framangreinda þætti sem spurt var um sérstaklega, eru hér með gerð opinber ásamt viðauka sem fylgdi bréfinu.
Forsætisráðuneytið vekur athygli á því að auðkenni lögaðila og einstaklinga hafa verið afmáð úr þeim hluta svarsins sem birtur er. Þá hefur sá hluti svarbréfsins sem lýtur almennt að greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja hf. einnig verið afmáður. Er það afstaða ráðuneytisins að rétt sé að Seðlabankinn taki afstöðu til þess, ef á reynir, hvort heimilt sé að veita opinberan aðgang að þeim hluta svarbréfsins, sem einkum varðar mál þess tiltekna aðila, með hliðsjón af þagnarskyldureglum sem við eiga, sbr. m.a. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Sama á við um aðgang að gögnum sem fylgdu svarbréfinu.
Forsætisráðuneytið mun á næstu vikum leggja endanlegt mat á efnisatriði málsins og hvort tilefni sé til frekari gagnaöflunar eða viðbragða á grundvelli athugunar ráðuneytisins.
Bréf forsætisráðherra til Seðlabanka Íslands
Svarbréf Seðlabanka Íslands til forsætisráðherra