Botnfiskurinn bætir upp loðnubrestinn

Deila:

Aflaverðmæti úr sjó var 10,6 milljarðar í janúar sem er 10,2% aukning samanborið við janúar 2018. Verðmæti botnfiskaflans nam 9,6 milljörðum og jókst um 35,7%. Verðmæti þorskaflans nam 5,8 milljörðum og jókst um 990 milljónir eða 20,6% samanborið við janúar 2018. Mikil aukning var í verðmæti ýsuaflans sem nam ríflega 1,9 milljarði samanborið við 950 milljónir í janúar 2018. Verðmæti uppsjávarafla var einungis 55 milljónir samanborið 1,9 milljarða í janúar 2018. Munar þar að sjálfsögðu mest um loðnuafla. Verðmæti flatfiskafla var 855 milljónir, 49,5% meiri en í janúar 2018.
Þessi aukning verður þrátt fyrir mikinn aflasamdrátt í mánuðinum. Fiskafli íslenskra skipa í janúar var 46,6 þúsund tonn sem er 57% minni afli en í janúar 2018. Aflasamdráttur skýrist af samdrætti í loðnuafla en engin loðna veiddist í janúar samanborið við 68 þúsund tonn í janúar 2018. Botnfiskafli nam tæpum 43 þúsund tonnum í janúar og jókst um 17% miðað við sama mánuð 2018. Af botnfisktegundum var aflaaukningin mest í ufsa- og ýsuafla, en þorskafli jókst einnig um 5%.
Það er því veruleg aukning botnfiskaflans sem gerir mun betur en að vega upp á móti loðnubrestinum mælt í verðmætum.

Verðmæti afla sem seldur var til eigin vinnslu innanlands nam tæpum 5 milljörðum, sem er um 47% af heildarverðmæti. Verðmæti sjófrysts afla nam 3,2 milljörðum og verðmæti afla sem fór á fiskmarkaði til vinnslu innanlands var tæpir 1,9 milljarðar, eða um 18% af heildarverðmæti.

Á 12 mánaða tímabili, frá febrúar 2018 til janúar 2019, nam aflaverðmæti úr sjó rúmum 128 milljörðum króna sem er 9,1% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Hagtölur sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á gögnum um verðmæti fyrstu sölu landaðs afla sem Fiskistofa safnar saman.

Verðmæti afla 2018–2019
Milljónir króna Janúar Febrúar-janúar
  2018 2019 % 2017-2018 2018-2019 %
Verðmæti alls 9.613,8 10.592,6 10,2 117.596,6 128.253,4 9,1
Botnfiskur 7.117,9 9.657,3 35,7 81.421,8 92.631,3 13,8
Þorskur 4.818,6 5.809,4 20,6 52.043,5 57.774,5 11,0
Ýsa 949,9 1.916,9 101,8 8.535,3 11.555,6 35,4
Ufsi 446,0 827,4 85,5 6.863,1 8.327,5 21,3
Karfi 619,7 797,8 28,7 9.437,4 10.386,6 10,1
Úthafskarfi 0,0 0,0 333,3 218,8 -34,3
Annar botnfiskur 283,7 305,8 7,8 4.209,2 4.368,1 3,8
Flatfiskafli 571,6 854,6 49,5 8.043,8 10.445,0 29,9
Uppsjávarafli 1.908,9 55,0 -97,1 25.686,8 22.551,4 -12,2
Síld 39,5 55,0 39,2 4.504,4 4.655,9 3,4
Loðna 1.869,3 0,0 8.578,8 4.022,3 -53,1
Kolmunni 0,0 0,0 4.078,1 6.366,4 56,1
Makríll 0,0 0,0 8.525,4 7.506,8 -11,9
Annar uppsjávarafli 0,0 0,0 0,0 0,0 -98,3
Skel- og krabbadýraafli 15,4 25,7 66,6 2.444,2 2.625,8 7,4
Humar 0,0 0,0 833,6 567,5 -31,9
Rækja 5,7 0,2 -97,1 1.236,2 1.483,6 20,0
Annar skel- og krabbadýrafli 9,8 25,6 161,9 374,4 574,6 53,5
Annar afli 0,0 0,0 0,0 0,0

 

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: