Þúsund tonna túr

Deila:

Löndun úr frystitogaranum Vigra RE hófst um helgina en veiðiferð skipsins lauk fyrr en ætlað var. Er rætt var við Árna Gunnólfsson skipstjóra var Vigri skammt vestur af Reykjanesi á leið til hafnar í Reykjavík. Vigri er nú formlega kominn í HB Granda flotann eftir kaup félagsins á útgerðarfélaginu Ögurvík hf.

,,Við fórum út 29. mars sl. þannig að þetta eru réttar fjórar vikur hjá okkur. Allt hefur gengið vel. Aflabrögðin hafa verið góð og við erum sennilega með um 950-1.000 tonn upp úr sjó í túrnum. Afurðaverðið er gott og það er helst þetta flökt á gengi krónunnar sem skapar óvissu,“ segir Árni en hann upplýsir að víða hafi verið farið í veiðiferðinni.

,,Á meðan hinu svokallaða fæðingarorlofi þorsksins stóð hér syðra fórum við norður á Kolkugrunn og reyndar Halann líka. Þar var kraftveiði þá daga sem ufsinn gaf sig til. Að loknu fæðingarorlofi þegar Selvogsbankinn og nærliggjandi svæði voru aftur opnuð fyrir togveiðum þá fórum við þangað. Það var hellingsveiði á Selvogsbankanum og á Tánni og það kom mér á óvart hve mikið var um ýsu. Fyrst stóð hún djúpt og var niðri á 160 til 170 föðmum en síðan grynnkaði hún á sér. Það var einnig hægt að fá góðan þorskafla á Selvogsbanka en við stunduðum engar beinar þorskveiðar í þessum túr, heldur tókum þorskinn sem meðafla,“ segir Árni en að hans sögn var síðustu dögunum varið í leit að djúpkarfa.

,,Það er því miður lítið um djúpkarfa. Svo eru rússnesku skipin  mætt á Reykjaneshrygginn, á landhelgislínuna og þeim á eftir að fjölga á næstunni.“

Vigri er nú, sem fyrr segir, kominn í fiskiskipaflota HB Granda og Árni segist ekki kvíða þessari breytingu.

,,Okkar hlutverk er óbreytt en það er halda áfram veiðum og gera okkar besta. HB Grandi er klassafyrirtæki með framúrskarandi starfsfólk og stjórnendur sem gaman verður að vinna með.“

Deila: