Fjögur mál til umhugsunar

Deila:

Það eru einkum fjögur mál sem eru eigendum smábáta til umhugsunar þessa dagana. Það er frumvarp til laga um fyrirkomulag makrílveiða, grásleppuveiðar, strandveiðar og línuívilnun. Þeir eru ósáttir við fyrirhugaða breytingar á veiðistjórnun á makríl, þeir vilja tryggingu fyrir 48 strandveiðidögum, vilja byggja á núverandi veiðistjórnun á grásleppu og vilja línuívilnun fyrir alla smábáta. Ægir ræddi þessi mál við Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda.

Ósáttir við makrílfrumvarp

„Frumvarp sjávarútvegsráðaherra um makrílveiðarnar hefur verið kynnt í samráðsgátt Alþingis, en eftir á að mæla fyrir því. Við erum mjög ósáttir við það hvernig að því er staðið. Í fyrra féll úr gildi ákvæði til bráðbirgða um að taka til hliðar aflaheimildir fyrir smábátana. Þá féll einnig úr gildi ákvæði um að draga ætti 5,3% frá heildarkvóta og taka frá til jöfnunar, áður en úthlutað yrði samkvæmt hlutdeild,“ segir Örn og heldur áfram: „Eins og frumvarpið er nú, er það alveg skýrt að öllum leyfilegum heildarafla skuli úthlutað samkvæmt hlutdeild. Ekkert er tekið til hliðar til að minnka áföllin hjá smábátaútgerðinni. Á helmingi reynslutímans, sem á að miða kvótasetninguna við, voru smábátar vart byrjaðir á makrílveiðum enda makríllinn ekki kominn hingað upp að ströndinni á þeim tíma.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda telur ekki ráðlegt að breyta fyrirkomulagi grásleppuveiða. Það muni leiða til óæskilegrar samþjöppunar.

Okkur finnst alveg með ólíkindum að ekki skuli tekið tillit til þess strax og sett inn í frumvarpið. Við væntum þess að þar verði breyting og tillaga LS í þessu máli beinist að því að áður en heildaraflanum sé úthlutað séu dreginn frá 4.000 tonn og eyrnamerkt færaveiðum hjá smábátum og ennfremur að 5,3%. Við teljum stöðu okkar ásættanlega verði orðið við þessu. Stefnan okkar hefur hins vegar verið að 16% af heildarkvóta verði tekið til hliðar fyrir smábátana. Ef svo kæmi í ljós að bátarnir næðu ekki að veiða það, yrði því sem eftir stæði úthlutað til stærri skipa sem á þyrftu að halda.

Megin ástæða þess að við höfum ekki náð að hasla okkur almennilega völl í makrílveiðunum, eru inngrip stjórnvalda í veiðarnar. Til dæmis má nefna árið 2014, en þá var mjög góð makrílveiði hjá okkur, en þá voru þær stöðvaðar 5. september í mokveiði. Þá voru um hundrað bátar á veiðum og makríllinn rann niður í lestar þeirra sem aldrei fyrr. Síðan gerist það 2015 að makríllinn er kvótasettur hjá smábátunum, þrátt fyrir að þetta hafi aðeins verið þriðja árið hjá þeim á makrílveiðum og veiðireynsla því lítil.“

Að vissu marki ánægðir

Veiðikerfinu fyrir strandveiðar var breytt í fyrra, þar sem tekið var upp 48 veiðidaga kerfi á tímabilinu maí til og með ágúst. Þá var horfið frá svæðaskiptum veiðum með takmörkunum fyrir hvert svæði fyrir sig og fjórum veiðidögum í viku uns hámarki svæðisins var náð. „Við erum að vissu marki ánægðir með þá breytingu, en engu að síður teljum við nauðsynlegt að þessir 48 dagar náist . Breytingin er líka gerð til að auka öryggi sjómanna. Áður en þetta kerfi kom á, áttu menn það á hættu að veiðarnar yrðu stöðvaðar í upphafi hvers mánaðar, þegar kvótinn á því svæði var búinn. Þá myndaðist mikil keppni um að reyna að ná sem flestum dögum. Í þessu 48 daga kerfi verður líka að horfa til þess að ekki komi ekki til neinnar spennu um að lokun allra svæða sé á næsta leiti, ef aflakvótinn er að verða búinn og því gríðarlega mikilvægt að tryggja 48 daga. Nú eru aflaheimildirnar í einum potti, en ekki skipt eftir svæðum eins og áður var. Því verður ekki eitt landsvæði stoppað af, heldur stoppa þá allir á sama tíma, ef heildaraflaviðmiðun er náð.“

Í fyrra voru það færri bátar sem fóru af stað á strandveiðarnar en árið áður, þannig að veiðin minnkaði milli ára og það kom ekki til neinnar stöðvunar. „Þannig gekk veiðin eiginlega alveg eftir því sem Landssambandið var búið að spá þá. Við teljum það einnig núna að með því að auka við leyfilegan heildarafla og að ufsinn teljist þar fyrir utan sé búið að tryggja grunn strandveiðanna með fjórum sinnum 12 dögum, að ekki komi til neinnar stöðvunar. Við erum því sáttir við þessar breytingar, þær eru skref í rétta átt.

Það eru svo ýmsar aðrar breytingar sem við viljum sjá í framtíðinni. Okkur þótti til dæmis miður að ekki hafi verið gerð úttekt á kerfinu í fyrra, við gerum ráð fyrir að það verði gert í lok þessa strandveiðitímabils. Meðal þessara atriða er að veiðitímabilið verði lengt apríl og september teknir inn og að menn geti sagt sig frá veiðunum á miðju tímabili og farið á aðrar veiðar í stað þess að vera bundnir í strandveiðunum alla fjóra mánuðina. Það myndi létta þrýstinginn á kerfið, til dæmis ef það kæmi góð makrílvertíð. Þá gætu menn snúið sér að makrílnum ef það gæfi fyrirsjáanlega möguleika á betri tekjum en af strandveiðunum,“ segir Örn.

 

Hækkandi verð á grásleppu

„Grásleppuvertíðin er nýhafin og það liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun telur að það þurfi að draga aðeins úr veiðunum. Við teljum samt sem áður að þar sem við náðum ekki að veiða það magn sem við ætluðum í fyrra á 44 dögum, að leyfilegir veiðidagar verði á því rólinu. Við erum þessa dagana að fara yfir hvaða tillögur við gerum til ráðuneytisins um fjölda daga á vertíðinni og mælum það með hvernig veiðin hefur farið af stað, þátttöku í veiðunum og berum saman við fyrri vertíðir.

Frá árinu 1989 hafa helstu aðilar í veiðum, vinnslu og sölu afurða úr grásleppuveiðunum í heiminum  komið saman til árlegs upplýsingafundar. Á þeim fundi sem haldinn var nú í febrúar, kom fram að markaðurinn væri nokkuð stöðugur. Þó hefði kannski þurft að veiða aðeins meira í fyrra til að anna eftirspurn. Við teljum að það komi okkur til góða núna og verðið muni halda áfram hækka. Útflutningsverð í fyrra tók kipp upp á við og er grásleppan og hrognin úr henni líklega sú sjávarafurð sem hækkuðu mest milli ára, bæði í evrum og dollurum. Menn eru því bjartsýnir á vertíðina, en það á svo eftir að koma í ljós hvernig veiðin verður. Vertíðin fer ekkert alltof vel af stað, en það á vonandi eftir breytast þegar veður verður skaplegra. Öllu skiptir að það haldist gott meðan mesta aflavonin er, því það þarf ekki nema eina brælu til að veiðin falli um allt að þúsund tonn.“

Í fyrra voru það aðeins færri en áður sem stunduðu veiðarnar. Árið 2017 voru um 250 bátar við þessar veiðar, en um 220 á síðasta ári. En Örn segist finna fyrir meiri áhuga hjá grásleppukörlunum nú en í fyrra.

Kvótasetning í grásleppu leiðir til samþjöppunar

Síðan hafa þau tíðindi borist úr sjávarútvegsráðuneytinu að áform ráðherrans séu að breyta veiðistjórnun á grásleppu og færa hana yfir í kvóta og stjórna með aflamarki. Starfshópur um þessi áform var að störfum í fyrra og þar kom meðal annars í ljós að það þarf að breyta lögum, til þess að hægt sé að kvótasetja grásleppuna. Það á ekki við um hana eins og hlýra eða blálöngu þar sem reglugerð dugði svo dæmi séu tekin. „Það gæti mikið gengið á ef ráðherra ákveður þessa breytingu, því veiðunum hefur verið stjórnað á farsælan hátt í áratugi og reynslan af núverandi kerfi er mjög góð. Ef við tökum síðustu átta eða níu árin hefur niðurstaðan orðið sú að ekki hefur verið of mikið veitt. Frekar að það hafi upp á vantað ráðlagðan heildarafla. Ef það verður ofan á að grásleppan verði kvótasett, þýðir það ekkert annað en að það verður mikil samþjöppun í þessum veiðum, í stað hundruð báta verður tveggja stafa tala raunin,“ segir Örn.

Besta hráefni sem fáanlegt er

Línuívilnun er ein þeirra leiða sem farin hefur verið til að styðja við útgerð smábáta og fiskvinnslu  á útgerðarstöðum á landsbyggðinni. Samkvæmt henni fá þeir smábátar sem róa með landbeitta línu viðbót við aflaheimildir sínar, sem nemur fimmtungi. „Á undanförum árum höfum við keppst við að að reyna að fá línuívilnun fyrir alla dagróðrabáta, sem eru minni en 30 tonn, ekki bara þá sem beita í landi og stokka upp. Því miður hefur okkur ekki orðið ágengt og það hefur leitt til þess að línuívilnunin hefur ekki nýst að fullu. Við höfum líka óskað eftir því að ívilnunin verði hækkuð úr 20% í 30% til að hún skili sér betur. Hún hefur reynst mjög vel upp að vissu marki, en það þarf, eins og í öðru, að gera þar breytingar og fylgja þar eftir þróuninni bæði með línu og öðrum veiðum. Það á ekki að skipta máli hvaða aðferð sé notuð við beitninguna, heldur ætti að efla línuveiðar smærri báta almennt með þessari breytingu. Mesta eftirspurnin er eftir fiski af dagróðrabátum sem er besta hráefni sem fáanlegt er,“  segir Örn Pálsson.

Værum sterkari allir saman

Úrsagnir stærstu smábátanna úr Landsambandi smábátaeigenda komu illa við sambandið. Örn segir að þó þeir hafi sagt sig úr félaginu, njóti þeir engu að síður áfram starfs landssambandsins. Það hafi berlega komið í ljós, þegar veiðigjaldið var ákveðið. Landssambandið hafi ekki verið að gera greinarmun á því í kröfugerð sinni, hvort smábátarnir væru innan þess eða annars félagsskapar. Lögð hafi verið áhersla á að sérstakur afsláttur á veiðigjaldinu yrði fyrir smærri og meðalstórar útgerðir. Það hafi tekist að hækka þennan aflsátt mjög mikið, úr 20% í 40% af gjaldi sem var innan við sex milljónir. Þetta munar miklu fyrir útgerðirnar.

Þá sé það annar þáttur að Landssambandið standi í samningum við stéttarfélögin um kaup og kjör á bátunum. Þar sé landssambandið einnig að vinna fyrir aðila sem kjósi að standa utan þess. „Okkur finnst það mjög miður að þessir aðilar sjái sé ekki fært að vera innan landssambandsins, því aldrei í sögunni hefur það unnið beint gegn hagsmunum þessara aðila. Við vitum það að með því að sameina alla smábátaeigendur innan eins félags, eru engin samtök eins sterk eins og Landssamband smábátaeigenda,“ segir Örn Pálsson.

Viðtalið birtist fyrst í nýjasta Ægi, 3. tbl. 2019.

 

Deila: