Rétti tíminn kominn

Deila:

„Við ákváðum að fara út í þetta bara af því að við Ómar höfum svo oft verið spurðir hvort við gætum tekið að okkur verkefni, en við höfum aldrei verið með eigin bát. Við ákváðum svo að taka slaginn þegar við fundum góðan bát og og maður sem við höfum áður verið að vinna með, slóst í hópinn. Okkur fannst það góð viðbót því hann hefur verið laginn við að útvega samninga.  Við höfðum ekki reiknað með að vera komnir af stað fyrr en um næstu mánaðamót eða svo, en þá var kallinn kominn með samning strax við Statoil. Ætlunin hafði verið að fara í bergmálsrannsóknir en í staðinn verðum við vaktbátur við olíuborpall hjá Statoil.“

Þetta segir Brynjólfur Sigurðsson, skipstjóri, en hann hefur ásamt skipstjórunum Inga Torfa bróður sínum og Ómari Erlingssyni og norskum aðilum keypt bátinn Jökul ÞH til að gera út sem þjónustuskip við norska olíuiðnaðinn og til fleiri verkefna á svipuðu sviði. Báturinn hét upphaflega Súlan EA og var keypt til Akureyrar, en hefur nú hlotið nafnið Nord og er skráður í Grindavík.

Ómar-Erlingsson-og-Brynjólfur-Sigurðsson-skipstjórar. um borð í norska rannsókna- og þjónustuskipinu Lance.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

„Þessi verkefni sem við erum að fara í eru  þau sömu og við erum búnir að vera við síðustu árin, alls kyns verkefni fyrir olíuiðnaðinn.“  Brynjólfur er búinn að vera í þessu sem skipstjóri í um átta ár og Ómar í 12 ár og þeir vita því vel hvað þeir eru að fást við. Brynjólfur var skipstjóri á flutningaskipum áður, en fór síðan í þjónustu við vindmillur á hafi úti í Norðursjó, en þar starfar Ingi Torfi bróðir hans nú og hefur gert lengi. Brynjólfur var þar í rúmt ár áður en hann fór í skipstjórn á þjónustubátum fyrir olíuiðnaðinn og rannsóknir af ýmsu tagi.

„Það sem heldur manni við þetta er að í þessu er svo mikil tilbreyting. Maður veit aldrei hvað skeður á morgun. Það er kannski svolítil áhætt fólgin í því að fara út í þennan bransa á eigin skipi, en við erum búnir að vera lengi í þessu og höfum góð sambönd og reynslu, sem kemur okkur til góða. Við höfum góðan grunn til að meta stöðuna og nú er að færast líf í olíuiðnaðinn á ný. Það var mikið af verkefnum, sem voru sett á ís fyrir nokkrum árum. Þau eru að fara í gang aftur svo það verður örugglega nóg að gera hjá okkur,“ segir Brynjólfur.

Hann segir að þeir Ómar hafi lengi verið að spá í þetta, en aldrei orðið neitt úr því. Þeir hafi verið í verkefnum og ekki haft tíma til að hugsa um það fyrr en nú. Nú hafi rétti tíminn komið og mikið af verkefnum í boði. Þetta hafi alltaf strandað á því að þeir hafi ekki verið með bát kláran.

„Við höfum staðið á haus síðustu vikurnar eftir að við fengum skipið afhent. Verið að vinna í því sjálfir yfir 100 tíma á viku og verið í kapphlaupi við tímann til að missa ekki samninginn. En maður verður að leggja aðeins á sig þegar maður er að byrja. Þetta er bara þannig. Maður er búinn að vera svo lengi í skipstjórastólnum, að vinnan við að gera skipið klárt, var kannski eins og að henda gömlum atvinnumanni í fótbolta aftur inn á völlinn aftur og láta hann spila þrjá leiki á einni viku. Það hefur einfaldlega verið brjálað að gera hjá okkur.

Svo vil ég nefna það að starfsmenn Samgöngustofu hafa verið mjög liðlegir við okkur og gerðu okkur kleift að komast af stað í tíma. Þetta hefði aldrei hafst ef þeir hefðu ekki verið svona hjálpsamir.“

Brynjólfur segir að báturinn sé mjög góður þó hann sé orðinn gamall. Þykktarmæling og öxulmæling hafi komið vel út eins og önnur próf. Báturinn eigi því mörg ár eftir. Það sé leiðinlegt að sjá svona marga nothæfa báta liggja ónotaða eða senda í brotajárn, af því einhverjir kvótagreifar sitji á öllum kvótanum og fyrir vikið sé svona mikið af verkefnalausum bátum. Honum finnst það sárt.

Báturinn er skráður í Grindavík og heitir Nord. Brynjólfur segir að hann hafi ekki verið með í því að velja nafnið, en litnum hafi hann fengið að ráða. „Rautt er rétti liturinn og rétti flokkurinn. Liturinn kemur vel út,“ segir hann. Þeir félagar eru nú með bátinn á leið til Noregs og ættu að vera komnir langleiðina í dag. Brynjólfur og Ómar verða með bátinn í verkefnunum í Noregi.

 

Deila: