Meira af síld en minna af kolmunna

Deila:

Síldar varð meira vart í nýafstöðnum leiðangri færeyska rannsóknaskipsins Magnusar Heinasonar en í leiðangri síðasta árs. Á hinn bóginn varð minna vart við kolmunna. Rannsóknasvæðið er norður af Færeyjum, en ekki alveg það sama og í fyrra og því er samanburðir erfiður.

Um er að ræða norsk-íslenska síld en mest af henni fannst í norðausturátt frá Færeyjum og austur af Íslandi. Mest er um stóra og gamla síld að ræða, en nú fannst einnig töluvert af sex ára gamalli síld, sem bendir til þess að stærð árgangsins frá 2103 sé góð.

Kolmunna var mest að finna norður af Færeyjum og í átt til Íslands. Mest af honum var syðst á rannsóknarsvæðinu. Útbreiðslan nú og í fyrra er nokkuð breytt frá árunum 2014 til 2017, en þá var mikið um ungan kolmunna á öllu færeyska rannsóknasvæðinu.

Á myndinni má sjá útbreiðslu norsk-íslensku síldarinnar í leiðangri Fæeyinga.

Leiðangurinn er hluti alþjóðlegs leiðangurs sem Færeyjar, Ísland, Noregur, Danmörk og Rússland taka þátt í. Mat á stofnstærð norsk-íslenska síldarstofnsins verður unnið á fundi þessara ríkja um miðjan júní.

 

Deila: