Opinn fundur hjá Marel

Deila:

Mánudaginn 27. maí býður Marel öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér félagið á opinn fund í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ. Þar munum við kynna fyrirætlanir okkar um hlutafjárútboð og skráningu í Euronext-kauphöllina í Amsterdam.

Marel stendur nú á tímamótum þar sem félagið hyggur á almennt hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam til viðbótar við núverandi skráningu félagsins á Nasdaq á Íslandi.

Á fundinum munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna starfsemi Marel og fyrirætlanir félagsins um hlutafjárútboð og tvíhliðaskráningu á erlendan markað.

Haldnar verða pallborðsumræður um Marel og vegferð félagsins frá sprota til alþjóðaleiðtoga með 6.000 starfsmenn í yfir 30 löndum um allan heim. Meðal þátttakenda í pallborðinu verða Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Marel á Íslandi.

Einnig mun gestum bjóðast tækifæri til að ganga um og kynna sér framleiðslu- og nýsköpunarstarfsemi Marel.

Skráning hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam, til viðbótar við íslensku kauphöllina, mun auka sýnileika Marel og aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta. Útboð á nýju hlutafé mun einnig styrkja fjárhagsskipan félagsins og verða hlutirnir skráðir í gjaldmiðli sem styður betur við stefnu félagsins um framtíðarvöxt.

 

Deila: