Fá lýsu í fótreipi!

Deila:

Veiðin hjá Vestmannaey VE og Bergey VE hefur verið góð það sem af er mánuði. Skipin hafa fengið yfir 700 tonn en þau hafa lagt áherslu á að fiska annað en þorsk. Þau hafa veitt löngu, lýsu, steinbít og kola, en nú hafa þau hafið ýsuveiðar.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra á Bergey í gærmorgun og spurt hvernig gengi að forðast þorskinn. „Það er bara erfitt. Það er svo mikið af þorski út um allt að hann truflar verulega þegar veiða á aðrar tegundir, en það þarf að sjálfsögðu að hugsa um fleira en þorsk. Við erum núna innarlega á Papagrunni að reyna við ýsu. Veiðin hefur gengið svona bærilega, en við komum ekki í neina ýsu fyrr en við vorum komnir austur eftir. Áður lögðum við áherslu á steinbít og kola og þá var mest verið við Ingólfshöfðann. Lýsu höfum við fengið í fótreipi í Háfadýpinu, en mér finnst vera heldur minna af lýsu en verið hefur síðustu árin“, segir Jón.

Deila: