Mjög góð gullkarfaveiði á fjöllunum

Deila:

Skip HB Granda komu eitt af öðru til hafnar í vikulokin vegna sjómannadagsins sem haldinn er hátíðlegur í dag. Á föstudagsmorgun kom Höfrungur III AK til hafnar í Reykjavík eftir 29 daga úthald og eina millilöndun og var aflinn rúm 900 tonn upp úr sjó.

,,Við byrjuðum veiðiferðina á grálúðuslóð í Víkurálnum en náðum takmörkuðum árangri vegna þess að við lentum í brasi með veiðarfærin. Þá kom töluvert á óvart að mikið af þorski var að flæða yfir svæðið og það truflaði okkur enda voru þorskveiðar ekki á dagskránni,“ segir Haraldur Árnason skipstjóri í samtali við heimasíðu HB Granda.

Úr Víkurálnum var haldið norður á Halann en þar var þá karfa- og ufsaveiði.

,,Við vorum töluverðan tíma á Halanum og fengum góðan afla. Sérstaklega var ufsaveiðin góð og við vorum að fá mikið af stórum og góðum ufsa. Frá Halanum færðum við okkur austur í Reykjafjarðarál. Þar var góð ýsuveiði en hún stóð ekki nema í nokkra daga.“

Síðasta þriðjungi veiðiferðarinnar var varið í veiðar á suðvesturmiðum.

,,Við vorum í Skerjadjúpinu og á Fjallasvæðinu. Það er búin að vera mjög góð gullkarfaveiði á Fjöllunum og þar fengum við bæði karfa og ufsa. Þetta er of seint til að reyna við djúpkarfa í Skerjadjúpinu. Það gerir maður í febrúar og eitthvað fram í apríl og svo ekki aftur fyrr en síðla hausts,“ segir Haraldur Árnason.

 

 

Deila: