Hækkar ráðgjöf í þorski enn eitt árið?

Deila:

Litlar líkur á Hafrannsóknastofnun mun kynna ráðgjöf sína um hæfilegan heildarafla helstu fiskitegunda nálægt miðjum júní. Mest spenna ríkir jafnan um ráðleggingar í þorski, okkar helsta nytjastofni. Ráðgjöf um heildarafla byggist á þeirri reglu að ekki séu veidd meira en 20% úr viðmiðunarstofninum hverju sinni. Ráðgjöfin hefur farið hækkandi allan þennan áratug í samræmi við vöxt viðmiðunarstofnsins, farið úr 160.000 tonnum af óslægðu í 264.437 tonn á núverandi fiskveiðiári. Það er mesti þorskkvóti síðan 1993.

En hvers má vænta? Er líklegt að viðmiðunarstofninn haldi áfram að stækka og leyfilegur heildarafli vaxi að sama skapi? Í ráðgjöf Hafró fyrir núverandi fiskveiðiár segir svo um framtíðarhorfur: „Árgangur 2015, sem kemur í viðmiðunarstofninn árið 2019, er metinn nokkuð yfir meðaltali áranna 1955–2017 (175 milljónir við þriggja ára aldur). Árgangur 2016 er metinn nokkuð undir meðaltali en árgangur 2017 nálægt meðaltali. Því er líklegt að stærð viðmiðunarstofns næstu þrjú ár muni haldast nokkuð svipuð því sem nú er.“

„Hrygningarstofn hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í fimmtíu ár. Veiðihlutfall hefur lækkað og er það lægsta á stofnmatstímabilinu. Nýliðun síðan 1988 er að meðaltali um 140 milljónir 3 ára nýliða, mun minni en hún var árin 1955–1987 (meðaltal um 205 milljónir). Stækkun stofnsins er því fyrst og fremst afleiðing minnkandi sóknar. Árgangurinn frá 2013 er metinn slakur en árgangar 2014 og 2015 eru nálægt langtímameðaltali.“
Viðmiðunarstofninn hefur einnig farið stækkandi allt frá árinu 2007 og er að nálgast sömu stærð og árið 1980. En árið 1981 varð þorskafli Íslendinga sá mesti í sögunni, 461.000 tonn.

„Og ráðleggingin er svohljóðandi fyrir þetta fiskveiðiár. „Hafrannsóknastofnun ráðleggur 3% aukningu á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 257.572 tonnum í 264.437 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Samkvæmt stofnmatinu í ár er stærð viðmiðunarstofns aðeins stærri en 2017. Búist er við að þorskárgangarnir frá 2014 og 2015 sem koma inn í viðmiðunarstofninn 2018 og 2019 munu stækka hann lítillega frá því sem nú er. Árgangur 2016 er metinn undir meðaltali en fyrsta mat á árganginum 2017 bendir til að hann verði við meðaltal.“

Samkvæmt þessu er útlitið nokkuð gott og ekki líklegt að Hafró ráðleggi samdrátt í veiðum. En í togararalli Hafró frá í mars síðastliðnum, virðast vera blikur á lofti. Stofnvísitala þorsksins hefur lækkað tvö síðustu ár og: „Meðalþyngd 1-5 ára þorsks mældist undir meðaltali áranna 1985-2019, en meðalþyngd eldri þorsks var um eða yfir meðaltali. Mælingar síðustu fjögurra ára sýna þó að árgangurinn frá 2015 er með þeim léttari frá 1985,“ segir í niðurstöðum rallsins. Sé fiskurinn léttari þarf fleiri fiska í hvert tonn og 20% af viðmiðunarstofni sem er léttari en áður, gæti leitt til ráðgjafar um minni afla. Þess ber þá að gæta að togararallið er aðeins hluti þeirra upplýsinga, sem notaðar eru við endanlegt stofnstærðarmat í ráðgjöf í kjölfar þess.

Þorskkvótinn á þessu fiskveiði ári jókst um 3%, en ráðgjöfin í ýsu og ufsa um 40% og 30%. „Samkvæmt aflareglu stjórnvalda er ráðlagt aflamark ýsu 57.982 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018/2019, sem er 40% aukning frá fyrra ári. Þessi aukning byggir á bættri nýliðun ýsu árin 2016 og 2017 miðað við fimm ár þar á undan. Aflaregla ufsa gerir jafnframt ráð fyrir 30% aukningu í aflamarki fyrir næsta fiskveiðiár, úr 60.237 tonnum í 79.092 tonn. Aukninguna má m.a. rekja til hins stóra 2012 árgangs sem og árganganna frá 2013 og 2014,“ segir í ráðleggingum Hafró frá því í fyrra.

Þarna virðist því útlitið nokkuð gott, en í niðurstöðum togararallsins segir svo: „Vísitölur ýsu og ufsa lækkuðu frá fyrra ári, eftir að hafa farið hækkandi frá 2014. Vísitölur gullkarfa, löngu og langlúru eru háar miðað við síðustu þrjá áratugi. Vísitölur steinbíts, keilu, skarkola, þykkvalúru, lýsu og skötusels eru nú nálægt meðaltali tímabilsins, en stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúru eru í sögulegu lágmarki. Vísitala grásleppu hefur farið lækkandi frá 2015 og er nú undir meðaltali áranna frá 1985.“

Loðnan er mikilvægasta fæða þorsksins umhverfis landið. Mun minna af loðnu hefur undanfarin ár komið upp að landinu til hrygningar en fyrr á árum. Í vor var það lítið af henni að engar veiðar voru leyfðar. Samkvæmt nýrri varúðarreglu þarf nú að skilja meira eftir til hrygningar og fyrir þorskinn en áður. Breytt hegðun loðnunnar hlýtur að hafa neikvæð áhrif á vöxt og viðgang þorskstofnsins verði hún viðvarandi.

Það er vandi að spá, einkum um framtíðina, en gera má ráð fyrir að ekki sé mikilla breytinga að vænta á ráðgjöf Hafró í nánustu framtíð.

 

 

 

Deila: