Marel í Euronext Kauphöllina í Amsterdam

Deila:

Síðastliðinn föstudag, föstudaginn 7. júní voru hlutabréf Marel tekin til viðskipta í Euronext Kauphöllinni í Amsterdam. Hlutabréf Marel verða þá skráð í tveimur kauphöllum en Marel er einnig skráð í Nasdaq Kauphöllina á Íslandi.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel opnaði fyrir viðskipti í Kauphöllinni í Amsterdam í með  því að slá í gong sem jafnframt markar upphaf viðskipta þann daginn.

Föstudagurinn markar mikil tímamót í sögu Marel sem hefur verið skráð í Nasdaq Kauphöllina á Íslandi síðan árið 1992. Síðan þá hefur Marel vaxið úr sprota í leiðtoga  á heimsvísu. Árið 1992 námu tekjur félagsins 6 milljónum evra og starfsmennirnir voru 45 talsins. Með stuðningi breiðs hóps fjárfesta og bakhjarla í íslensku samfélagi hefur félagið vaxið og dafnað, en árið 2018 námu tekjur Marel 1,2 milljarði evra.

Í dag starfa yfir 6.000 manns hjá félaginu, þar af um 700 á Íslandi. Árlega fjárfestir Marel 6% af heildartekjum í nýsköpun og vöruþróun, sem er meira en nokkur samkeppnisaðili okkar. Á síðasta ári nam fjárfesting okkar í nýsköpun 74 milljónum evra eða sem nemur tæpum 10 milljörðum króna.

„Í dag er stór stund í sögu félagsins nú þegar skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam er í höfn, til viðbótar við skráninguna á Íslandi. Við erum afar stolt af þeim mikla áhuga sem hlutabréfaútboðið fékk, bæði frá einstaklingum og fagfjárfestum hér heima og erlendis. Margföld eftirspurn var í útboðinu sem dreifðist vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri landa. Skráningin í Euronext kauphöllina mun styðja við næstu skref í framþróun félagsins og styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið. Sýn okkar er veröld þar sem hágæða matvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt,“segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

„Við erum bæði stolt og ánægð með þann mikla áhuga sem útboðið hefur fengið. Margföld eftirspurn frá bæði einstaklingum og fagfjárfestum er góður vitnisburður um stöndugan rekstur félagsins og þau miklu vaxtartækifæri sem framundan eru í matvinnsluiðnaði. Aukin breidd í hluthafahópnum og aðkoma stórra alþjóðlegra hornsteinsfjárfesta eru kærkomin viðbót við þann öfluga hóp hluthafa sem stutt hafa við félagið hingað til. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam mun styrkja fjárhagsskipan félagsins og veita reynslumiklu stjórnendateymi okkar styrkan grunn til að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu okkar,” segir Áshildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel.

EÐLILEGT NÆSTA SKREF

Eins og Árni Oddur Þórðarson fjallaði um á opnum fundi í Marel sem haldin var þann 27. maí sl. þá er skráning hlutabréfa Marel í alþjóðlega kauphöll á borð við Euronext eðlilegt næsta skref í framþróun Marel. Tvíhliða skráning mun styðja við vaxtarmarkmið Marel um 12% árlegan meðalvöxt tekna á tímabilinu 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, ásamt samstarfi við lykilaðila og kaupum á fyrirtækjum.

Skráningin mun enn fremur auka sýnileika Marel og aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta, og styrkja fjárhagsskipan til framtíðar. Skráning á alþjóðlegan hlutabréfamarkað veitir aðgengi að breiðari hóp fjárfesta og veitir reynslumiklu stjórnendateymi Marel styrkan grunn til að framfylgja metnaðarfullum áætlunum um frekari vöxt félagsins og mæta áskorunum framtíðar í matvælavinnslu.

NIÐURSTAÐA ÚTBOÐS

Útboðsgengið var ákveðið 3,70 evrur á hlut, en byggt á því er heildarmarkaðsvirði Marel um 2,82 milljarðar evra. Í útboðinu voru boðnir til sölu um 90,9 milljónir nýrra hluta. Auk þess verða allt að um 9,1 milljón hluta gefnir út í tengslum við hefðbundinn valrétt til að mæta umframeftirspurn.

Lesa má nánar um niðurstöðu útboðsins hér.

 

Deila: