Þjóðhöfðingjar í brú Breka

Deila:

Forsetar Þýskalands og Íslands, Frank-Walter Steinmeier og Guðni Th. Jóhannesson fóru um borð í togarann Breka VE í Vestmannaeyjahöfn í dag og áttu góða stund í brúnni ásamt eiginkonum sínum, Elke Büdenbender og Elizu Reid, og fjölmennu föruneyti. Magnús Ríkarðsson skipstjóri og Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri tóku á móti hinum tignum gestum fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar.

Þýski forsetinn var í opinberri heimsókn á Íslandi og kynnti sér meðal annars íslenskar lausnir á ýmsum sviðum umhverfismála. Hann óskaði sérstaklega eftir því að sjá Breka og fræðast um þá staðreynd að sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi hafa nú þegar náð því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um liðlega 40%, sem er markmið Parísarsamkomulagsins fyrir 2030!

Breki VE er ákjósanlegur vettvangur slíkrar kynningar fyrir þýska forsetann því samspil risastórrar skrúfu, vélar og gírs togarans sparar olíunotkun við veiðar svo tugum prósentum skiptir miðað við hefðbundinn búnað sambærilegs togara.

Þýski þjóðhöfðinginn hlustaði af sérstakri athygli gestgjafar hans sögðu að langmikilvægasti tæknibúnaðurinn í Breka sem sparar orku (skrúfa, vél, gír) er hannaður og/eða framleiddur af þýsku fyrirtækjunum MAN og Reintjes.

Það þótti forseta nú ekki ónýtt að heyra.

Tími forsetaheimsóknarinnar í skipinu var naumt skammtaður, hámark hálftími frá því komið var að skipshlið þar til gengið var frá borði, samkvæmt útgefinni dagskrá. Sá tími flaug og rúmlega það.

Heimildarmenn í fylgdarliði forsetanna sögðu reyndar að einstakir dagskrárliðir heimsóknarinnar hefðu hneigst nokkuð til að lengjast umfram áætlun, einfaldlega vegna þess að þýsku forsetahjónin sýndu því svo mikinn áhuga sem fyrir augu og eyru bar, til að mynda í Breka. Þau vildu fá meira að sjá og heyra og spurðu margs.

Við Sólheimajökul í morgun voru þýskir ferðamenn á ferð og ráku upp stór augu þegar þeir sáu sjálfan forseta sinn á vappi við hopandi jökulsporð á Íslandi. Steinmeier spjallaði góða stund við landa sína, sat fyrir með þeim á myndum og naut lífsins úti í náttúrunni. Þá gerðust leiðsögumennir ókyrrir og litu títt á klukkur sínar áhyggjufullir yfir áætlunum sem riðluðust.

Frank-Walter Steinmeier var kjörinn forseti Þýskalands í mars 2017. Hann var í forystusveit þýskra jafnaðarmanna og var lengi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Angelu Merkel. Þar áður var hann ráðuneytisstjóri hjá Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands. Hann var virtur og vinsæll stjórnmálamaður og þegar hann bauð sig fram til forseta hlaut hann yfirburðakosningu, 74% greiddra atkvæða. Forsetinn sýnir loftslags- og umhverfismálum áberandi áhuga í embættistíð sinni. Hann segir að Þjóðverjar geti lært margt af Íslendingum í þeim efnum, ekki síst hvernig hægt sé að skipta um orkugjafa án þess að raska lífi fólks umtalsvert.

Áhöfnin á Breka tók á móti forsetunum við skipshlið. Það var mögnuð móttökuathöfn. Gestirnir heilsuðu Magnúsi og félögum með handabandi og sátu fyrir á mynd með þeim á bryggjunni.

Um borð í Breka mátaði Guðni Th. skipstjórahásætið í brúnni, lét vel fara um sig og hafði Steinmeier kollega sinn og Magnús Ríkarðsson sér við hlið sem stýrimenn.

Um fimmleytið lét Breki úr höfn og stefndi á miðin. Þá hafði Maggi R á ný tekið völd í brúnni en forsetar Íslands og Þýskalands voru komnir í móttöku hjá Kristínu Jóhannesdóttur í Eldheimum.

Lífið hrökk þannig fljótt í fyrri skorður í Breka en heimsókn þjóðhöfðingjanna um borð verður lengi í minnum höfð þótt stutt hafi verið. Þökk sé forsetum og fylgdarliði öllu fyrir komuna.

Ljósmyndir: Hreinn Magnússon

 

Deila: