Strangar æfingar

Deila:

Áhafnir Landhelgisgæslunnar gangast undir margskonar þjálfun og það er alveg óhætt að fullyrða að þessar æfingar séu einn mikilvægasti þátturinn í starfi þeirra sem sinna leit- og björgun. Að jafnaði fer þjálfunin fram hér á landi en einstaka sinnum erlendis. Sumar aðstæður krefjast þess að æft sé í sérstökum tækjum sem ekki er að finna á Íslandi og dæmi um það er þjálfun í að bjarga sér úr þyrlu sem lendir í vatni.

Allar þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar verða að gangast á nokkurra missera fresti undir svokallaða HUET-þjálfun og á það jafnt við um flugmenn, sigmenn, spilmenn og lækna. Markmiðið er að allir um borð séu undir það búnir að geta komist úr þyrlu sem þarf að lenda í sjó eða á vatni.

Þjálfun er bæði bókleg og verkleg. Í verklega þættinum kemur áhöfnin sér fyrir í þyrlulíkani sem er síðan slakað niður í sundlaug. Fyrst er þetta gert rólega, svo er hraðinn aukinn, því næst er líkaninu velt og í síðustu ferðinni er æfingin gerð í svartamyrkri. Allt er þetta gert til að líkja eftir sem raunverulegustum aðstæðum. Þótt þessi þjálfun geti bjargað mannslífum má gera því skóna að enginn vilji nokkurn tímann þurfa að grípa til hennar.

Elvar Steinn Þorvaldsson, sigmaður og stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, tók meðfylgjandi myndband af félögum sínum í vatninu en eins og sjá má gekk öllum afar vel að komast úr ,,þyrlunni“.

https://youtu.be/BYhqIqjgPF8

 

Deila: