Verð á botnfiski mun hærra en í fyrra

Deila:

Verðmæti landaðs afla hefur aukist nú borið saman við mars í fyrra, þrátt fyrir að aflinn í mars nú hafi verið 25% minni en í fyrra. Munar þar mestu að engin loðna veiddist í ár en tæplega 82.000 tonn í mars í fyrra. Þá er það athyglivert að verðmæti þorskaflans skuli aukast um 21%, þar sem aflinn var nánast sá sami í mars nú og í fyrra eða ríflega 31.000 tonn.

Aflaverðmæti þorsksins í mars nú er 11,9 milljarðar króna samkvæmt frétt Hagstofunnar um aflaverðmæti. Í sama mánuði í fyrra var verðmætið 9,8 milljarðar. Munurinn er hvorki meira né minna en tveir milljarðar eða 21,1%. Það bendir ótvírætt til umtalsverðrar hækkunar á fiskverði milli ára, þó aukið hlutfall landana á sjófrystum fiski gæti haft eitthvað að segja líka.

Verðmæti ýsuaflans hækkaði um 73,4% milli þessara mánaða, en aflinn jókst ekki nema um 49% og varð nú ríflega 6.000 tonn. Þessi munur bendir eins og í þorskinum til hækkunar á verði upp úr sjó. Verðmæti ufsaaflans dróst saman um 1,4%, sem er mun minna en samdráttur í afla var, eð 14%. Þrátt fyrir 20% minni karfaafla eykst verðmæti hans um 2,3%.

Að þessu skoðuðu er ljóst að verð upp úr sjó á þessum helstu nytjategundum okkar hefur hækkað umtalsvert frá síðasta ári. Samtals eykst verðmæti botnfisks um 21%, þrátt fyrir 2% samdrátt í afla.

 

Deila: