Kröfðust kyrrsetningar á meira en milljarði
Yfirvöld hafa krafist kyrrsetningar á eignum fyrir meira en milljarð króna vegna meintra skattaskjólsumsvifa fiskútflytjanda í Hafnarfirði. Skattrannsóknin er ein sú umfangsmesta á síðari tímum samkvæmt frétt ruv.is.
Rúmlega fjögur ár eru síðan skattrannsóknarstjóri keypti frá útlöndum gögn um tengsl Íslendinga við félög í skattaskjóli. Embættið hefur út frá gögnunum rannsakað tugi mála, þar á meðal skattaskjólsumsvif Sigurðar Gísla Björnssonar fiskútflytjanda og forsvarsmanns fyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurða í Hafnarfirði.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst formlega í desember 2017 þegar gerð var húsleit meðal annars á heimili Sigurðar Gísla. Lagt var hald á fé og eignir kyrrsettar, til að tryggja greiðslu á skattaskuld og mögulegri sekt.
Rannsóknin hefur undið mjög upp á sig, og mun vera orðin ein umfangsmesta skattrannsókn síðari tíma á Íslandi. Fleiri en Sigurður Gísli eru nú til rannsóknar.
Yfirvöld gerðu í desember 2017 kröfu um kyrrsetningu og áætluðu að vangoldnir skattar og sekt gætu samtals numið tæplega 330 milljónum króna. Ári síðar var aftur gerð krafa um kyrrsetningu, og þá fyrir áætlaðri skuld upp á hátt í 1,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði Landsréttar.
Þar kemur einnig fram að í desember í fyrra hafi heimili fyrrverandi eiginkonu Sigurðar Gísla og verðbréf í hennar eigu verið kyrrsett, þar sem hjónin fyrrverandi hafi borið óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hluta þess tímabils sem er til rannsóknar. Fyrrverandi eiginkonan reyndi að fá kyrrsetningunni hnekkt fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti, sem höfnuðu kröfum hennar.